131. löggjafarþing — 75. fundur,  16. feb. 2005.

Þjónustutilskipun Evrópusambandsins.

282. mál
[13:31]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Í Evrópusambandinu og þar með á hinu Evrópska efnahagssvæði er nú hart tekist á um svokallaða þjónustutilskipun. Ekki þarf að koma á óvart þó hart sé tekist á um þessa tilskipun því að tekist er á í raun um sjálfan grundvöll velferðarþjóðfélagsins. Á 20. öldinni var grunnur velferðarsamfélagsins lagður með almannatryggingakerfi og grunnþjónustu á vegum hins opinbera, velferðarþjónustu sem var og er opin öllum þegnum samfélagsins. Nú vill peningavaldið markaðsvæða þessa þjónustu, færa hana undir lögmál hins innri markaðar Evrópusambandsins. Fulltrúar fjármagnsins vilja ganga lengra. Samkvæmt þjónustutilskipuninni á að gilda svokölluð upprunalandsregla. Samkvæmt henni eiga kjarasamningar og reglur á vinnumarkaði að gilda í því landi sem fyrirtæki er upprunnið í jafnvel þótt það færi úr kvíarnar annars staðar innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þetta þýðir að ríki með slakar reglur á þessu sviði munu ógna þeim kerfum þar sem reglur og samningar eru betri. Allt er þetta réttlætt með tilvísun í Lissabon-yfirlýsingu Evrópusambandsins á árinu 2000. Þá var haldinn mikill fundur í Lissabon í Portúgal þar sem því var lýst yfir að stefnt skyldi að því að gera Evrópusambandið enn samkeppnishæfara á heimsmarkaði en nú er og standa öllum heimshlutum framar í því efni. Ekkert minna átti að nægja. Nú fóru margir að hugsa sér gott til glóðarinnar og það hófust mikil átök um hvernig ætti að hrinda þessum draumum í framkvæmd eða gera þá að veruleika.

Fyrsta skrefið sem tekið var á vegum stjórnarnefndar bandalagsins, Evrópukommissjónarinnar, var að gefa út græna skýrslu sem svo var nefnd. Hún kom út vorið 2003. Þar var uppleggið lagt fram og að sögn átti skýrslan að vera umræðugrunnur sem aðilum gæfist kostur á að ræða og bregðast við, ekki síst af hálfu Evrópuþingsins. Fundur var boðaður í byrjun árs 2004, 13. janúar, en viti menn, sama dag birti stjórnarnefnd Evrópusambandsins drög að þjónustutilskipuninni þannig að aldrei fór fram sú lýðræðislega umræða sem hafði verið lofað.

Vorið 2004 birtist síðan hvít skýrsla þar sem brugðist var við athugasemdum sem þá höfðu komið fram og síðastliðið haust, í nóvember, fór fram í fyrsta skipti vönduð umræða innan Evrópuþingsins. Síðan varð framhald á þessu í desember og framhald á enn að verða á þessu ári. Það er mikil og vaxandi andstaða við þetta innan Evrópusambandsins. Reynslan sýnir okkur hins vegar að þegar peningaöflin og bírókratarnir í Evrópusambandinu leggjast á eitt, sameinast um stefnuna, þá hafa þeir sitt fram og nú spyr ég: Kemur til greina að Íslendingar, íslenska ríkisstjórnin, beiti neitunarvaldi innan hins Evrópska efnahagssvæðis ef menn ætla að knýja þetta fram?