131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Kjarasamningar opinberra starfsmanna.

51. mál
[13:12]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra minn trúr. Annað hvort væri nú að við værum sammála um það, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að Hæstiréttur sé æðri Félagsdómi. Við erum sammála um það, það er alveg klárt. Ef Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að lögin væru andstæð stjórnarskránni þá horfði málið öðruvísi við. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að þá mundu ýmsir halda því fram að það þyrfti að breyta stjórnarskránni eins og hér hefur komið fram í dag. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, með þeim rökum sem ég flutti í löngu máli áðan í ræðu minni um frelsið, að þetta ákvæði stangist ekki á við ákvæði stjórnarskrárinnar.

Hv. þingmaður hefur líka haldið því fram að þetta stangist á við jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Ég er þeirrar skoðunar að svo sé alls ekki. Mér finnst athyglisvert að eins og hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa talað í dag mætti draga þá ályktun að þetta væri mál sem fjöldi manns gengi með sár og benjar undan. En hver er ástæðan fyrir því að á þetta hefur ekki reynt með öðrum hætti en fyrir Félagsdómi? Það er ekki nokkur maður sem telur að þetta særi eða skerði frelsi sitt. Þvert á móti telja ákaflega margir að þetta ákvæði sé ein grundvallarstoðin undir tilvist verkalýðsfélaga og a.m.k. vörn gegn því að undan þeim flæði. Þess vegna hafa menn sætt sig við þetta. Ég er almennt þeirrar skoðunar að þau réttindi sem Íslendingar búa við í dag megi að verulegu leyti rekja til starfshátta og starfsemi samtaka launamanna. Grundvöllurinn fyrir réttindabaráttu þeirra var að menn höfðu það svigrúm sem tekjur af þessu tagi gáfu þeim.