131. löggjafarþing — 76. fundur,  17. feb. 2005.

Losun koltvísýrings.

[13:58]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir þátttökuna í umræðunni. Mér þykir auðvitað mikilvægt að hæstv. umhverfisráðherra skuli ætla sér að fara vandlega yfir þessar nýju upplýsingar og skoða aðgerðir með tilliti til þeirra niðurstaðna sem þá koma til með að liggja á borðinu. Ef ég skildi hana rétt sagði hún jafnframt að ef við förum að moka ofan í skurðina og bindum þar með aftur kolefnin í jarðvegi mundi sú binding bætast við aðra bindingu okkar. Það hlýtur þá að vera að því gefnu að við tökum losunina líka inn í bókhaldið.

Við vitum það sem hér sitjum að bindingslosun er náttúrulegt ferli og þó að við ætlum okkur að auka bindingu á Íslandi þá vitum við að við bindum ekki mjög lengi kolefni í íslenskum skógi. Birkiskógur bindur kannski kolefni í nokkra áratugi en um leið og ákveðin mettun verður fer hann aftur að losa þannig að í sjálfu sér má gagnrýna að það skyldi hafa orðið niðurstaða í Kyoto að binding í gróðri skyldi tekin inn sem eitt af samningsákvæðunum. Ég gagnrýni það að íslensk stjórnvöld skuli að því er virðist ætla að leggja svona mikla áherslu á bindingu í gróðri. Ekki það að ég sé að hallmæla skógrækt eða landgræðslu, þvert á móti. En við þurfum að átta okkur á því að það er heildarmagn losunar sem skiptir verulegu máli og skiptir í raun og veru öllu máli í þessum efnum. Og þegar vinda á ofan af losuninni gerum við það bara á einn veg: Með því að draga úr losun af mannavöldum. Það eru aðgerðir sem miða að því að dregið verði úr losun af mannavöldum sem skipta mestu máli í þessum efnum.

Síðan fagna ég yfirlýsingu hv. formanns umhverfisnefndar sem ætlar sér greinilega að leggjast fast á árarnar með okkur sem höfum barist fyrir endurheimt votlendis og sömuleiðis vil ég lýsa því yfir að ég er opin fyrir hugmyndum hv. þm. Helga Hjörvars varðandi endurskoðun á því hvernig málum er fyrir komið í stjórnsýslunni hér á landi.