131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Nýting mannvirkja á varnarliðssvæðinu.

[15:25]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Síst af öllu vil ég búa til einhverja kergju í málinu, en vert að minnast þess að á síðasta ári hafði ég hug á því að leggja fram fyrirspurn um sama efni til hæstv. iðnaðarráðherra en var vinsamlegast beðinn um það af iðnaðarráðuneytinu að falla frá þeirri fyrirspurn á þeim forsendum að það vantaði tíma til að vinna verkið og skoða hlutina í skýru ljósi. Þess vegna kemur þetta viðmót hæstv. ráðherra mér afskaplega mikið á óvart í dag, tæpu ári seinna.

Samdráttur hjá varnarliðinu er raunin og mjög alvarlegt ef doði stjórnvalda á að taka við í þessum efnum. Það er áhyggjuefni þegar varnarliðið dregur saman í rekstri sínum en á hinn veginn skapast líka mjög spennandi tækifæri. Fyrir þær sakir óska ég þess að hæstv. iðnaðarráðherra og jafnvel hæstv. utanríkisráðherra hugsi um í sameiningu að setja á fót nefnd sem hugsanlega gæti verið skipuð fulltrúum frá sveitarfélögum á Suðurnesjum, fólki frá ráðuneytum þeirra og síðast en ekki síst fólki frá Samtökum iðnaðarins — með það (Forseti hringir.) að markmiði að kortleggja tækifærin sem eru til staðar á varnarliðssvæðinu.