131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Afdrif laxa í sjó.

58. mál
[17:12]

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þær fróðlegu og skemmtilegu umræður sem hér hafa farið fram um þessa tillögu okkar þingmanna Samfylkingarinnar um þetta efni. Það er alveg ljóst af undirtektum þeirra sem hér hafa tekið til máls að þetta er efni sem margir bera fyrir brjósti sér. Ég er sérstaklega þakklátur hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir þær yfirlýsingar sem hann hefur hér gefið, m.a. hvað varðar hans mikla og ríka áhuga á að efla þær rannsóknir sem í gangi eru til þess að í framtíðinni sé hægt að þróa þær með þeim hætti að við fáum gleggri upplýsingar um hvað það er sem veldur afföllum á laxi í hafi. Ekki síður vil ég þó þakka hæstv. ráðherra fyrir þá skorinorðu yfirlýsingu sem hann gaf um annan ferskvatnsfisk. Ég á hér við ísaldarurriðann í Þingvallavatni sem margsinnis hefur komið til umræðu á hinu háa Alþingi. Ástæðan er sú að hann er einstakur í heiminum og önnur ástæða er sú að það var maðurinn sem nánast deyddi hann algjörlega út. Það voru umræður á hinu háa Alþingi sem leiddu til ákveðinna breytinga sem aftur höfðu í för með sér að honum var ekki útrýmt með öllu. Nú hefur hæstv. landbúnaðarráðherra sem þekkir málið úr Þingvallanefnd lýst því skýrt yfir að hann telji að það eigi að opna honum farveg niður Efra-Sog. Þetta er ákaflega mikilvæg yfirlýsing og ég fagna henni mjög.

Sömuleiðis fagna ég undirtektum þeirra þingmanna sem hér komu á eftir í ræðustól og reifuðu viðhorf sín til þessa, hv. þingmanna Steingríms J. Sigfússonar, Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Það er mjög mikilvægt að á hinu háa Alþingi skuli vera kominn ótvíræður meiri hluti fyrir þessu máli. Við höfum barist fyrir því lengi, nokkrir þingmenn. Árið 1995 hillti undir landsýn í málinu, skömmu fyrir kosningar þegar þáverandi landbúnaðarráðherra, núverandi forseti Alþingis, Halldór Blöndal, lýsti því yfir úr þessum stóli að hann væri þess fýsandi að sú leið yrði farin. Skömmu síðar urðu ríkisstjórnarskipti og ekki var sami skilningurinn innan nýrrar stjórnar. Nú er þennan skilning hins vegar að finna innan Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins, Frjálslynda flokksins, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar. Þetta er ákaflega mikilvægt.

Ég tek undir það sem komið hefur fram hjá hæstv. landbúnaðarráðherra og þingmönnum sem hafa talað um nauðsyn þess að efla þá möguleika sem liggja í stangaveiðum. Við vitum að 55–65 þúsund manns stunda stangaveiði sem íþrótt. Fátt er hollara og meira gefandi fyrir fjölskyldur en að fara saman á vit fjallvatna og veiða. Fátt er ódýrari og heilnæmari skemmtun.

Við sem höfum nú margan laxinn þreytt og dregið á okkar ævi vitum líka að mesta gamanið er af því farið, bæði vegna þess að þegar menn eru búnir að veiða marga laxa skynja þeir að það er miklu meira gaman að veiða silunginn en laxinn. En líka vegna alls þess tildurs og umstangs sem er í kringum laxveiðina. Þetta er orðið að mörgu leyti íþrótt fyrir þá sem eru betur efnaðir. Það breytir ekki hinu að frá atvinnulegu sjónarhorni er stangaveiði mjög dýrmæt. Hún er mikilvæg. Hún veltir nokkrum milljörðum. Bændur og veiðifélög fá í hreinar tekjur u.þ.b. 600–800 milljónir á hverju ári. Þetta er gríðarlega mikil búbót fyrir þá sem eru að basla við að búa áfram í dreifbýlinu og lifa af landinu. Þess vegna er mikilvægt að efla stangaveiði. Því er þessi tillaga hér fram lögð. Við viljum reyna að grafast fyrir um það með nýrri íslenskri tækni hvað veldur því að hinn annálaði stórlax Íslands er smám saman að dvína út úr veiðinni. Það er hugsanlegt að á því séu veiðifræðilegar skýringar. Hugsanlegt er að aukið veiðiálag á fyrri hluta veiðitímabilsins þegar stórlaxinn gengur, hann gengur jafnan fyrst, stærstu laxarnir fyrst og fara efst, fleyti stórlaxinum svo að segja ofan af stofninum, fjarlægi úr stofninum þau gen sem stýra þessum mikla vexti, sem stýra síðbúnum kynþroska og langri dvöl í hafinu.

Um þetta er hins vegar ekki vitað. Þetta er eitt af því sem þarf að kanna. Það þarf líka að skoða hvað veldur því að laxinn virðist ekki hafast við í hafinu í sama mæli og áður. Afföllin eru meiri. Við vitum að þegar sunnar og vestar dregur í Atlantshafinu er hægt að rekja orsakir hnignunar á laxastofnum til mengunar. Súrt regn hefur gjöreytt laxastofnum t.d. í Norður-Ameríku í Maine-fylki, þar sem voru frægar laxveiðiár á árum fyrr. Þær eru að mestu leyti útdauðar hvað lax varðar. Orsökin er fyrst og fremst mengun. Við vitum líka að veiðiþjófnaður í löndum eins og Írlandi, Skotlandi og Englandi þar sem áður fyrr var litið á veiðiþjófnað sem íþrótt og stéttvísa dyggð þeirra sem börðust gegn aðlinum — væntanlega forfeðra okkar hv. þingmanna Guðjóns Arnars og mín, sem alltaf höfum verið að berjast gegn forréttindum. Þar hefur veiðiþjófnaður tíðkast allt fram á þennan dag. Og hann hefur verið leyfður.

Ég minnist þess þegar ég ungur maður vann sem ráðgjafi og tengdist einmitt laxi í vesturhéruðum Írlands fyrir norðan Galway, að þar af tilviljun lenti ég í tvö þúsund manna mótmælagöngu. Á þeim árum var ég jafnan til í að mótmæla því sem tilefni gafst til að mótmæla, tók þess vegna þátt í göngunni en hafði ekki gengið mjög lengi þegar ég uppgötvaði að menn voru þarna að mótmæla því að búið var að setja lög gegn því sem þeir kölluðu „poaching“ eða veiðiþjófnað. Var ég þá snöggur að hafa mig úr þeirri göngu. Þetta tek ég til marks um þau viðhorf sem hafa ríkt í löndunum í grennd við okkur. Þar hefur það verið talið réttlætanlegt að ofveiða lax með þjófnaði og ýmsum aðferðum sem við mundum aldrei sætta okkur við hér á landi.

Hér á landi hefur enginn veiðiþjófnaður verið stundaður, ekki þannig að hægt sé að telja að hann hafi leitt til gjöreyðingar á stofnum. Þá er að vísu frátalinn sá veiðiþjófnaður sem óvætturinn, minkurinn, hefur stundað sem oft hreinsar þverár af laxaseiðum. Slíkar ár og kvíslar eru oft besta uppeldisstöðin í ánum. Hér á landi hefur heldur ekki verið teljandi mengun ef frá er talið í höfuðborginni, þar sem Elliðaárstofninn er í hættu og þar sem reykvísk yfirvöld mættu standa sig miklu betur við að byggja upp umhverfi árinnar. Það sama varðar líka Korpu. Þetta eru tvær litlar perlur á borgarfestinni sem verður að varðveita. Þar fyrir utan er erfitt að benda beinlínis á mengunarvalda sem hafa dregið úr viðgangi laxastofnanna. Það hlýtur þess vegna að vera eitthvað sem er að gerast í hafinu sem veldur því að stórfiskurinn kemur ekki til baka, að afföllin eru meiri í hafinu en maður átti áður að venjast. Hugsanlega eru þetta hitaskil sem hafa færst til. Hugsanlega eru einhverjir óþekktir mengunarvaldar eins og lífræn þrávirk efni sem gætu hafa leitt til þess að ratvísi fiskanna minnkar. Um þetta er ekkert hægt að segja fyrr en búið er að rannsaka þetta miklu betur en gert hefur verið í dag.

Ég vil að lokum, frú forseti, endurtaka það sem ég sagði áðan, þakka fyrir þessa góðu umræðu og þær góðu undirtektir sem við tillögunni hafa orðið. Ekki síður þær fróðlegu umræður sem hafa spunnist þar sem menn hafa miðlað af ýmiss konar reynslu og þekkingu á þessum efnum.

Ég legg til, frú forseti, þegar þessari umræðu lýkur að tillögunni verði vísað til landbúnaðarnefndar.