131. löggjafarþing — 77. fundur,  21. feb. 2005.

Verndaráætlun fyrir svæði sem eru ósýkt af sauðfjárriðu.

61. mál
[18:37]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta sé tekið til umræðu á hinu háa Alþingi, þ.e. þessi bölvaða riðuveiki sem hefur valdið bændum landsins svo miklum búsifjum á undanförnum fjölmörgum áratugum. Þetta er geysilega illvígur sjúkdómur og erfitt við hann að eiga. Við erum ekki að fást við einhverja veiru eða bakteríu, ekki eitthvert lífsform, heldur erum við að berjast við ákveðið eggjahvítuefni, prótein, sem smitast í sauðféð og dregur það til dauða á skömmum tíma með hroðalegum hætti. Þetta er á vissan hátt svolítið skylt kúariðu sem olli miklum búsifjum í Bretlandi og frá kúariðu er stutt yfir í Kreutzfeld-Jacobs sjúkdóminn, þó það sé að sjálfsögðu og sem betur fer fullsannað að sú riða sem leggst á sauðfé getur ekki borist yfir í fólk. En nógu slæmt er það samt.

Þegar ég las texta þingsályktunartillögunnar hnaut ég um að hv. flutningsmaður, Jóhann Ársælsson, talar um verndarsvæði, að útbúin verði verndaráætlun og eins og ég skil það að landið verði hólfað niður í ákveðin verndarsvæði. Mér leikur hugur á að vita hvernig hv. þingmaður sér þetta fyrir sér, hversu mörg verndarsvæðin eigi að vera og hvar á landinu. Hér er ágætismynd á bls. 3 sem sýnir hvar riðan hefur komið upp og virðast einkum þrjú svæði hafa verið mjög skæð. Mér þætti gaman að fá að heyra svolítið nánar um hvað hv. þingmaður hefur hugsað sér.