131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Landsvirkjun.

[13:56]

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Yfirlýsing Valgerðar Sverrisdóttur, hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, um einkavæðingu og sölu raforkufyrirtækja landsmanna kom eins og köld vatnsgusa yfir þjóðina. Í fréttum á föstudaginn lýsti hún áformum sínum og ríkisstjórnarinnar um sameiningu Landsvirkjunar, Rariks og Orkubús Vestfjarða í eitt sem síðan yrði einkavætt og selt á næstu dögum.

Mér varð hugsað eitt: Er nú verið að slátra síðasta félagshyggjuneistanum í Framsóknarflokknum? Verði orkubúin einkavædd og seld verða það allt eins erlendir auðhringar sem kaupa, og hvernig líst Vestfirðingum á að verða annexía frá stórfyrirtæki einhvers staðar utan úr hinum stóra heimi? Þetta snýst ekki um örfá störf, þetta snýst um forræði á þeirri almannaþjónustu sem rafmagnið er.

Það er engin sérstaða Reykvíkinga til að mínu viti. Við erum ein þjóð — eða erum við það ekki? — hvort sem við búum í Reykjavík, á Ísafirði eða í Ólafsfirði. Við eigum öll saman þetta land, auðlindir þess. Stór hluti auðs þjóðarinnar hefur að vísu safnast saman í Reykjavík, þar á meðal eignarhlutur í Landsvirkjun. Ef hagsmunir þjóðarinnar eru að orkuveitur landsmanna séu í opinberri eigu eru það líka hagsmunir Reykvíkinga.

Ég er ekki hlynntur aukningu í utanríkisþjónustunni en ég mundi styðja sérstaka fjárveitingu til að gera núverandi iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins að sendiherra í mjög fjarlægu landi ef það mætti verða til að stöðva þetta einkavæðingaræði Framsóknarflokksins.