131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Schengen-upplýsingakerfið á Íslandi.

538. mál
[14:26]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Það er von að hæstv. forseti telji að við séum að ræða um utanríkismál. Vissulega er þetta mikið utanríkismál sem við erum að ræða um því það snertir okkur öll sem ferðumst á Schengen-svæðinu og hvar sem við erum því við erum hluti af því kerfi sem við erum að fjalla hér um og það fylgir okkur hvert sem við förum. Raunar ætti eins og um önnur alþjóðamál og utanríkismál að gefa Alþingi skýrslu um þetta mál þannig að menn fylgdust með því hvað hér er um að ræða því það er, eins og ég segi, mjög nátengt hverju okkar og skiptir miklu máli þegar við ferðumst í öðrum löndum.

Spurt var hvort þetta kerfi væri samhæft í öllum Schengen-ríkjunum og svo er. Það er forsenda kerfisins að þar séu sams konar upplýsingar og þess vegna erum við að fjalla um þetta hér að verið er að breyta þessum grunnupplýsingum og því er nauðsynlegt að fjalla um það hér eins og í öðrum löndum. Við höfum lög um þetta, nr. 16 frá 14. apríl árið 2000, þar sem allir þættir málsins eru lögfestir og m.a. lögfest í 18. gr. laganna að Persónuvernd skuli hafa eftirlit með því að skráning og meðferð persónuupplýsinga í upplýsingakerfinu sé í samræmi við þessi lög og reglur sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins. Við höfum þessi ákvæði öll á hreinu.

Það sem við erum að gera í dag er að ræða breytingar á tveimur greinum í lögunum, þ.e. 5. og 6. gr. laganna. Í 5. gr. er fjallað um það sem skrá má í upplýsingakerfið. Í 6. gr. er fjallað um það sem heimilt er að skrá, upplýsingar sem heimilt er að skrá um einstaklinga í upplýsingakerfið og í hvaða tilvikum það er gert og þau tilvik eru tíunduð hér eins og við sjáum. Ég held að þetta sé alveg skýrt og augljóst og fagna því ef þingnefndin sem fjallar um málið kallar fyrir sig sérfræðinga til að ræða einstaka þætti málsins og útskýra þá. Ég er reiðubúinn til að gera það líka ef þingmenn vilja varpa til mín ákveðnum spurningum um það því þessi mál verða mjög á döfinni, ekki endilega Schengen-samstarfið sem slíkt heldur ákvarðanir sem verið er að taka á vettvangi Evrópusambandsins og líka á Evrópska efnahagssvæðinu og varða útgáfu á ferðaskilríkjum. Skýrt hefur verið frá því og það liggja fyrir fréttatilkynningar og ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um það að hér á landi eins og í öðrum löndum er unnið að því að endurskoða vegabréf með það fyrir augum að í þeim verði svokölluð lífkenni eða „biometrix“, þ.e. fingraför eða önnur persónuleg einkenni sem unnt er að nota til að greina einstaklinga með öðrum hætti en gert er núna þar sem aðallega er byggt á ljósmyndum eins og við vitum. Þetta starf er unnið hér. Við erum að undirbúa það að breyta íslenskum vegabréfum með hliðsjón af þessum evrópsku kröfum og einnig er tekið mið af því sem er að gerast í Bandaríkjunum og um það var spurt sérstaklega.

Það er líka reynsla okkar sem fjöllum um þetta hér að þetta er ekki einfalt mál og verður til þess m.a. að vegabréf muni hækka í verði o.s.frv. og kostnaður við gerð þeirra verður annar en nú ef mönnum tekst á annað borð að leysa öll þau tæknilegu atriði sem þarf að leysa til að þetta kerfi verði eins öruggt og að er stefnt, ekki bara til að greina einstaklinga þegar þeir fara inn um landamærahlið heldur einnig þegar þau eru nýtt á annan veg. Þetta mál er til skoðunar og við ætlum að sjálfsögðu að búa þannig um hnútana fyrir Íslendinga að þeir geti ferðast hindrunarlaust um heiminn að þessu leyti, þ.e. að íslensk ferðaskilríki verði þannig úr garði gerð að þau verði ekki nein sérstök hindrun fyrir fólk við að ferðast um heiminn og í því tilliti verðum við að uppfylla alþjóðlegar kröfur.

Þær upplýsingar sem menn eru að biðja um í Bandaríkjunum eru þessi lífkenni sem, eins og ég sagði, geta verið fingraför. Það er líka verið að velta fyrir sér öðrum þáttum sem ekki hafa verið ákveðnir. Sumir telja að tvö slík lífkenni þurfi að vera í hverju vegabréfi. Aðrir segja að nægilegt sé að hafa eitt. Þetta er eitt af þeim álitamálum sem verið er að fjalla um.

Hér hafa verið umræður um það sjónarmið að Evrópusambandið hefur fengið tryggingar frá Bandaríkjunum um meðferð á slíkum upplýsingum innan Bandaríkjanna gagnvart sínum borgurum. Hér komu fram spurningar fyrr á þessum vetri eða síðastliðið haust um hvernig þetta sneri að okkur Íslendingum, hvernig þessu væri háttað varðandi okkur Íslendinga. Þá er ég að tala um þær tryggingar sem Evrópusambandið hefur fengið fyrir sína borgara. Þetta er ekki Schengen-málefni. Þetta málefni snertir aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Ég verð á morgun í Brussel. Þá mun ég ræða þessi mál við viðkomandi framkvæmdastjóra í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og m.a. setjum við fram það sjónarmið að íbúar á Evrópska efnahagssvæðinu eigi að vera jafnsettir og íbúar innan Evrópusambandsins að því er þetta varðar um tryggingar gagnvart Bandaríkjunum. Þetta er mál sem þarf að leysa úr og við teljum að sé eðlilegt að fylgi aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við höfum verið í viðræðum þar um þetta. Við teljum einnig að við munum ná árangri í tvíhliða viðræðum við Bandaríkjamenn um þetta mál en lítum þannig á að þar sem þetta er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sé eðlilegt að fylgja Evrópusambandsríkjunum varðandi þessi samskipti að þessu leyti við Bandaríkjamenn, enda skiptir máli fyrir íslensk flugfélög sem fljúga héðan til Bandaríkjanna að málum er þannig háttað þegar litið er á EES-ríkin að Ísland er eina landið þaðan sem beint er flogið til Bandaríkjanna. Frá Noregi er ekkert slíkt flug og Liechtenstein ekki heldur eins og við vitum. En við erum með beint flug og okkur varðar þetta miklu og stjórnvöld hafa verið að sinna þessu máli eins og öðrum sem lúta að því að menn geti farið eins greiðlega á milli landa og kostur er og notið þess öryggis sem nauðsynlegt er í slíkum samskiptum.

Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að það er mjög æskilegt þegar menn fjalla um svona mál í þinginu að þá láti þeir ekki endilega staðar numið við þær tvær greinar sem eru t.d. í þessu frumvarpi heldur fjalli um allt sem þeir vilja skoða í þessu samhengi. Ég er viss um að hv. allsherjarnefnd getur fengið allar þær upplýsingar sem hún biður um sér til fróðleiks um framkvæmd á þessum málum.