131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

Stofnun einkahlutafélags um Orkuveitu Húsavíkur.

399. mál
[15:59]

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega svolítið uppnuminn yfir því hvað hv. þingmaður er sjálfstæður gagnvart framkvæmdarvaldinu hér í (Gripið fram í.) ræðu sinni og ætla að vona að það þýði að nú séu að koma breyttir tímar í sölum Alþingis, að Alþingi sé að endurheimta eða taka til sín það vald sem það á auðvitað að hafa, þ.e. að þingmenn líti ekki svo til að framkvæmdarvaldið eigi þá og að þeir eigi að rétta upp hönd með því sem það leggur til.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann geti ekki séð fyrir sér að þau ríkisfyrirtæki í raforkugeiranum sem nú eru til verði stokkuð upp og höfð fleiri en menn sjá fyrir sér núna, a.m.k. ríkisvaldið eða framkvæmdarvaldið, og að með þeim hætti verði búin til 2–3 fyrirtæki í raforkugeiranum sem geti þá keppt um þjónustu við fólkið í landinu í því nýja fyrirkomulagi sem þarna er á ferðinni.

Ég átta mig bara hreint ekki á því af hverju menn eru komnir út á þá braut að tala um að búa til eitt fyrirtæki úr þessu. Ég vil gjarnan heyra frá hv. þingmanni hvort hann telji að þetta sé endilega leiðin sem viðskiptaráðherrann, iðnaðarráðherra, lýsti yfir. Ég tel mögulegt að breyta svo eignarhaldi á einhverjum af þessum fyrirtækjum. Menn hljóta að velta því fyrir sér eftir því hvers konar samsetning verður á þeim fyrirtækjum sem verða til úr þeim ríkisfyrirtækjum sem nú eru rekin. Ríkissjóður þarf ekkert endilega að eiga öll þessi fyrirtæki. Við skulum segja að þau yrðu þrjú og þar geta þá aðrir aðilar komið til. Ég tel enga ástæðu til að útiloka neitt í því efni núna.