131. löggjafarþing — 78. fundur,  22. feb. 2005.

GATS-samningurinn.

63. mál
[18:13]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á svohljóðandi tilvitnun, með leyfi forseta:

„Opnið markaði án allra hindrana og á sömu kjörum og íslensk þjónustufyrirtæki og opinberar stofnanir njóta á sviði menntunarmála, menningarmála, umhverfismála, ferðamála, flutningastarfsemi, fjármálaþjónustu, viðskiptaþjónustu, byggingarframkvæmda, boðskiptaþjónustu og dreifingarþjónustu.“

Hvað skyldi þetta hafa verið? Þetta er krafa sem reist hefur verið á hendur Íslendingum af hálfu Bandaríkjanna, Japana og Indverja. Þetta gerist á grundvelli svokallaðra GATS-samningaviðræðna. Ef við föllumst á kröfur frá þessum ríkjum mun samkomulagið eða yfirlýsing okkar taka til allra aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem eru 145 að tölu.

Þetta nefni ég svona til marks um hve yfirgripsmiklir og hve mikilvægir þessari GATS-samningar eru og hve mikilvægt það er að við Íslendingar kynnum okkur hvað þarna er á ferðinni. Sú þingsályktunartillaga sem ég mæli fyrir og er flutt af hálfu allra þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fjallar um úttekt á GATS-samningnum og breytingar á þeim samningi. Fyrst ætla ég að segja fáein orð um GATS.

Þessir samningar hafa farið fram og fara fram á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem á ensku er skammstafað WTO, World Trade Organization, en sú stofnun var sett á laggirnar árið 1994 á grunni GATT-samningaferlisins um afnám tolla á heimsvísu. Vinnuheitið GATS er skammstöfun á General Agreement on Trading Services, almennt samkomulag um verslun á sviði þjónustu heitir það á íslensku. Í þessum samningum er tekist á um hvernig eigi að skilgreina þjónustustarfsemi og hvaða hluta hennar eigi að færa undir markaðslögmálin. Samtök launafólks hafa barist fyrir því að þessar viðræður fari fram fyrir opnum tjöldum en ekki luktum. Það hefur reynst mjög erfitt vegna þess að lengi vel hvíldi mikil leynd yfir þessum samningum. Þess má geta að það ferli sem nú er í gangi er allt hulið leyndarhjúp. Menn muna eflaust eftir óeirðunum og mótmælunum miklu í Seattle árið 1999. Þá var haldinn þar fundur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og mótmælin snerust eða voru gegn því sem sú stofnun var að véla, einmitt um GATS. Samningamenn reyndu síðan að forða sér á öruggari slóðir og menn kann að reka minni til fundar á Arabíuskaganum, í Arabíueyðimörkinni. Doha í Katar þótti mjög heppilegur fundarstaður fyrir Alþjóðaviðskiptastofnunina en þangað komust engir mótmælendur og einungis örfáum fulltrúum alþjóðaverkalýðshreyfingarinnar og almannasamtaka var heimilað að vera viðstaddir þann fund.

Í kjölfar Doha-fundarins var ákveðin ný áætlun. Sérhver ríkisstjórn skyldi koma óskum sínum leynilega á framfæri við aðrar ríkisstjórnir og síðan yrði viðræðunum smám saman þokað áfram. Rétt er að geta þess að GATS-samningurinn eða GATS-samningsferlið er mjög flókið. Það byggir á grundvallarsamningi sem stefnir að markaðsvæðingu á öllum sviðum efnahagsstarfseminnar og geta einstök ríki gengið mislangt í að skuldbinda sig til að markaðsvæða tiltekna geira efnahagsstarfseminnar. En þegar skuldbinding hefur á annað borð verið gefin um að halda með tiltekna starfsemi út á markaðstorgið er mjög erfitt að hverfa þaðan aftur því ríki eiga þá yfir höfði sér málssókn og hugsanlegar skaðabótakröfur.

Nema hvað, eftir mótmæli í Seattle, Washington, Evrópu og víðar var haldinn þessi fundur í Sádí-Arabíu og í kjölfarið var gerð ný áætlun eins og ég gat um áðan. Nú átti sérhver ríkisstjórn að koma óskum sínum leynilega á framfæri við aðrar ríkisstjórnar og þannig yrði viðræðunum smám saman þokað áfram. Fyrsta skrefið átti að taka í júní 2002 en sú dagsetning var síðan framlengd fram í mars 2003.

Í byrjun ágúst á síðasta ári, árið 2004, voru sett ný tímamörk fyrir það sem kallað var endurskoðaðar óskir, sem nú eiga að liggja fyrir á þessu ári en stefnt er að því að þær liggi endanlega fyrir nú í vor, jafnvel í maímánuði.

Það vakti talsverða athygli þegar breska blaðið Guardian upplýsti á sínum tíma hvaða óskum Evrópusambandið væri að tefla fram gagnvart viðskiptaríkjum. Þá kom fram m.a. að Evrópusambandið var að krefjast þess að drykkjarvatn yrði einkavætt eða yrði markaðsvætt í viðskiptaríkjum Evrópusambandsins. Þetta þótti verkalýðshreyfingu og félagslegum öflum í Evrópu ekki vera að sínu skapi og þessu var mótmælt mjög harkalega. Og það var annað sem olli einnig deilum þegar Guardian ljóstraði upp hvað þarna var að gerast. Þetta var og er allt gert leynilega. Á vegum Evrópusambandsins er það stjórnarnefnd Evrópusambandsins sem fer með samningsumboðið fyrir hönd allra aðildarríkjanna og upplýsir ekki nema í mjög almennum orðum hvað hún er að fara fram á. Þetta á við um Ísland líka. Ísland upplýsir ekki um þessar viðræður, enda öll aðildarríkin bundin því. Það eru gagnkvæmar skuldbindingar um að fara leynt með þessar samningaviðræður sem er náttúrlega mjög óeðlilegt. Það er mjög óeðlilegt að verið sé að gera kröfur í nafni einstakra ríkja án þess að almenningur sé upplýstur um hvaða kröfur er yfir höfuð verið að reisa.

Það sem við gerum tillögu um í þessari þingsályktunartillögu er tvennt:

Í fyrsta lagi fari fram úttekt vegna GATS-samningsins, ítarleg úttekt. Að gerði verði gerð úttekt á efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum sem og umhverfisáhrifum GATS-samningsins á Íslandi, bæði miðað við núverandi stöðu og hugsanlegar afleiðingar samningsins til langs tíma. Hluti af þeirri rannsókn verði greining á lagalegri stöðu GATS-samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gagnvart innlendum lögum og reglugerðum. Jafnframt verði kannað með hvaða hætti megi taka til endurskoðunar þær skuldbindingar sem Ísland hefur þegar undirgengist. Því það er eitt. Við höfum þegar undirgengist ýmsar skuldbindingar á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar innan þessa GATS-samnings án þess að nokkurn tímann hafi farið fram um það umræða.

Í öðru lagi viljum við að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að samningaviðræður Íslands og Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar verði opnaðar fyrir almenningi, bæði hvað varðar upplýsingar og þátttöku. Leitað verði m.a. til verkalýðsfélaga og annarra hagsmunasamtaka, auk fulltrúa sveitarfélaga og stofnana eftir því sem við á.

Ég vil taka fram að í samtökum þar sem ég þekki til, BSRB, hefur farið fram mjög mikil vinna og að því að ég tel mjög vönduð vinna á þessum samningi og þessu ferli öllu og samtökin hafa lagt sitt af mörkum til að opna þessa umræðu. Málið fór m.a. fyrir úrskurðarnefnd upplýsingamála sem úrskurðaði að stjórnvöldum bæri ekki að upplýsa hvað þarna væri á ferðinni.

Hins vegar verður það að segjast að embættismenn utanríkisráðuneytisins hafa sýnt ágætan samstarfsvilja í þessu efni. Haldnir hafa verið samráðsfundir, eftir að farið var að pressa á að vísu, það þurfti þennan þrýsting til og óskað hefur verið eftir framhaldi á slíku. Ríkin eru bundin því að virða trúnað, sem er mjög óeðlilegt og við erum að leggja til að fulltrúar Íslands beiti sér fyrir því að þetta verði opnað.

Við leggjum til að í yfirstandandi samningsferli Íslands og annarra aðila Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar vegna GATS-samningsins verði engar heimildir veittar fyrir markaðsvæðingu velferðar- og grunnþjónustu samfélagsins. Ekki verði fleiri þjónustugeirar felldir undir GATS-samninginn án undangenginnar könnunar á efnahagslegum, félagslegum og stjórnmálalegum áhrifum sem og umhverfisáhrifum samningsins á íslenskt samfélag og ekki fyrr en hlutdeild samtaka launafólks og annarra fulltrúa almennings í samningaviðræðunum hefur verið tryggð.

Í fjórða lagi, og hér komum við að lykilatriði, viljum við að fulltrúar Íslands á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar beiti sér fyrir því að ákvæði 3. mgr. 1. gr. GATS-samningsins verði skýrð á þann veg að engum vafa sé undirorpið að samningurinn nái ekki til almannaþjónustu og þjónustu á vegum hins opinbera.

Hér er má segja nákvæmnistal, að lagt er til að c-liður 3. mgr. 1. gr. verði felldur úr gildi og að fulltrúar Íslands beiti sér fyrir því á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Ég ætla aðeins að skýra hvað í þessu felst. Þetta er lykilatriði.

Fulltrúar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar segja að þessir samningar taki ekki til velferðarþjónustunnar, ekki til þess sem er á vegum hins opinbera og vísa þá gjarnan í þessa grein. Enska er reyndar eina tungumálið sem samningurinn hefur lagalegt gildi á og í greinargerðinni vísa ég til ensku útgáfunnar, en á íslensku hljómar þessi liður svohljóðandi, með leyfi forseta:

„... „þjónusta“ á við þjónustu á öllum sviðum nema þjónustu sem opinber yfirvöld veita.“

Þarna er verið að skilgreina þá þjónustu sem samningurinn tekur til og menn segja: Það á við um allt nema það sem opinberir aðilar veita.

En viti menn. Þegar kemur í c-lið, þann lið sem við viljum að verði felldur brott, þá er þetta nánar skilgreint svohljóðandi, með leyfi forseta:

„... „þjónusta sem opinber yfirvöld veita“ er þjónusta sem hvorki er veitt á viðskiptalegum grunni né í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur.“

Með öðrum orðum, byrjað er á að skilgreina það svo að samningurinn taki ekki til þjónustu sem er á vegum hins opinbera. Síðan er þetta skilgreint nánar, nema — nema, segja þeir — að þjónusta sem veitt er af hálfu opinberra aðila sé í samkeppni við einn eða fleiri þjónustuveitendur eða sé veitt á viðskiptalegum grunni. Með öðrum orðum, þegar þessi skýring er komin inn, þá er búið að galopna kerfið.

Þetta er sams konar ákvæði og er að finna í þjónustutilskipun Evrópusambandsins núna, þar er almenn regla sem virðist undanskilja velferðarþjónustuna, þjónustutilskipuninni, virðist gera það, en síðan kemur nánari skilgreining þar sem þjónustan er tengd viðskiptalegum forsendum. Þar er sagt að hafi þjónustan verið skilgreind sem slík, jafnvel þótt ekki sé greitt fyrir hana af notendum, t.d. í þjónustusamningum, þá skuli þjónustan falla undir þjónustutilskipunina.

Þetta er flókið og þvælulegt í mínum munni, ég veit það, en ég er að leggja áherslu á hve mikilvægt er að við setjum okkur inn í þetta vegna þess að þarna er verið að taka á grundvallaratriðum í uppbyggingu og skipulagi samfélags okkar.

Ég á eftir aðeins örfá orð en ég er búinn með ræðutíma minn, en það eru sem betur fer tvær ræður sem menn geta flutt við flutning á þingsályktunartillögu, þannig að ég mun að lokinni þessari ræðu biðja um orðið að nýju.