131. löggjafarþing — 79. fundur,  23. feb. 2005.

Heilbrigðisstofnun Suðurlands.

519. mál
[14:26]

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Hún er löngu tímabær, sú framkvæmd sem við erum að ræða hér um, að byggja við sjúkrahúsið í Árborg eða Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Það kom fram í svari ráðherra að verklok væru áætluð 1. febrúar 2007 og vona ég að það standist en ætla þó að spyrja hvort þá sé átt við fullbúið hús, hús tilbúið til reksturs eða komið í rekstur.

Ástæðan fyrir því að ég spyr að þessu er að ég hef reynslu af byggingarframkvæmdum heilbrigðisráðuneytis við sjúkrahúsið í Reykjanesbæ þar sem D-álma stendur nú og 3. hæð hefur staðið óinnréttuð ansi lengi þótt ráð hafi verið fyrir gert að hún yrði komin í notkun á þessum tíma. Því er ekki nóg að steypa upp kassa, heldur þarf að ganga algjörlega frá og þess vegna ítreka ég þessa spurningu mína eða bæti við spurningu hv. fyrirspyrjanda:

Ef verklok eru 1. febrúar 2007, er þá átt við fullbúið hús komið í rekstur?