131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Staðan í viðræðum um verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

[10:53]

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Frímannsdóttur fyrir að taka málið upp. Það virðist vera komið að verklokum hjá tekjustofnanefnd og er það vonum seinna þar sem mikilvægt er að hafa tillögur um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga ljósa í þeirri mynd sem verið er að draga upp með tillögum um stækkun sveitarfélaganna og fyrirhuguðum kosningum þar að lútandi í vor.

Í gær birtust á forsíðu Fréttablaðsins upplýsingar um nokkra þætti sem liggja fyrir í tekjustofnanefnd. Samkvæmt upplýsingum blaðsins er ljóst að ekki er vilji hjá ríkisstjórninni að hækka útsvarsprósentu á íbúa umfram 13,0%. Ef þetta reynist rétt er einnig ljóst að verið er að bjóða tímabundnar bráðabirgðalausnir þar sem ekki er tekið á vanda sveitarfélaganna til frambúðar né tekið á uppsöfnuðum fjárhagsvanda sem flest þeirra eiga við að glíma í dag. Krafan um stækkun sveitarfélaganna er augljóslega sett fram sem forsenda leiðréttingar eða breytinga á tekjustofnum sveitarfélaganna.

Hæstv. forseti. Ég vil fá að nota tækifærið og minna á frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lögðu fram í vetur. Í frumvarpinu er lagt til að rýmka heimildir sveitarfélaga til álagningar útsvars um 1%, þ.e. úr 13,03% í 14,03%. Tillagan var lögð fram í tengslum við áform ríkisstjórnarinnar um að lækka álagningu tekjuskatts um sama hundraðshluta.

Nú þegar ríkisstjórnin fer fram með tekjuskattslækkanir sínar á miklum þenslutíma, þvert ofan í ráðleggingar Seðlabankans og annarra ráðgjafa, tel ég að frumvarp Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eigi fullan rétt á sér og eigi að skoðast í samhengi við núverandi fjárhagsvanda sveitarfélaganna.

Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga er annað verkefni. Aukin verkefni krefjast nýrra tekjustofna fyrir sveitarfélögin. (Forseti hringir.) Verkaskipting hlýtur svo að fara eftir stærð og stöðu hvers sveitarfélags því þau eru og munu verða ólík innbyrðis um einhvern tíma.