131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

191. mál
[11:20]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hv. þingmanni sé fullkunnugt um hvað hafi valdið því að ég ákveð að leggja fram þá breytingartillögu sem ég mælti fyrir. Þegar nefndin afgreiddi frá sér málið höfðu ekki komið fram sannfærandi upplýsingar frá ráðuneytinu. Það var einfaldlega þannig. Ég rakti það í framsögu minni að utanríkisráðuneytið kom að máli við mig. Við höfum fundað með utanríkisráðuneytinu eftir að nefndarálitið var gefið út. Færð voru fyrir því rök að mjög varlega yrði stigið til jarðar þótt löggjafanum sjálfum væri heimilt að taka ákvörðun um það hverju sinni hvort beita mætti tilvísunaraðferðinni. Ég fellst á það sjónarmið og tel að þrátt fyrir allt sé mjög varlega farið.

Varðandi EES-gerðirnar sérstaklega vil ég ítreka að við erum hér að tala um algjör undantekningartilvik. Auðvitað er allur texti sem ratar inn í A-deildina í öllum aðalatriðum byggður á því sem þýtt hefur verið á íslensku. Ég þori að fullyrða að svo er í 99% tilvika. Hér er um afskaplega afmörkuð tilvik að ræða í mjög tæknilegum málum þar sem hópur sérfræðinga starfar með viðkomandi reglur. Sá hópur sem starfar á grundvelli þeirra reglna gerir ekki einu sinni tilkall til að þetta verði þýtt á íslensku og skilur ekki í því.

Þessi leið er jafnframt farin annars staðar. Ég vek athygli á því að þrátt fyrir allt er þetta að mínu áliti betri framkvæmd en tíðkast hefur hingað til vegna þess að það hefur oft gerst hingað til að segja einfaldlega í Stjórnartíðindunum að viðkomandi samningur hafi verið gerður, hann liggi frammi í ráðuneytinu og hann hafi ekki verið birtur.

Að öðru leyti, um EES-gerðirnar, vil ég bara ítreka að ég tel að þetta hafi engin áhrif á skuldbindingargildi EES-gerðanna.