131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:37]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það frumvarp sem við erum að ræða fjallar um afnám laga nr. 53/2002, um Tækniháskóla Íslands.

Þegar þau lög voru sett mátti ekki af því ráða að hér væri verið að setja einhver bráðabirgðalög sem ættu að gilda í nokkur ár því ef ég vitna í ræðu þáverandi menntamálaráðherra sem hann flutti þegar mælt var fyrir því frumvarpi, þá lagði hann einmitt ríka áherslu á að hér væri verið að setja á stofn metnaðarfulla stofnun sem hlyti virðulegan sess innan háskólasamfélagsins.

Nú þremur árum síðar stöndum við í þeim sporum að vera að nema umrædd lög úr gildi og sameina Tækniháskólann Háskólanum í Reykjavík að stærstum hluta. En það sem er ámælisvert er hve aðdragandinn að þessu máli hefur verið skammur. Umrætt mál fór t.d. einungis í gegnum tvær umræður í menntamálanefnd en ég hefði talið að það hefði þurft að ræða þetta aðeins lengur og út frá fleiri hliðum.

Við í Frjálslynda flokknum teljum í rauninni að svo stórar ákvarðanir ættu að ræðast á breiðari vettvangi og eðlilegra hefði verið að taka lengri tíma í að fara yfir málið. En þau rök sem hafa verið notuð gegn því að taka lengri tíma eru þau að hætt væri við því að verið væri halda nemendum og kennurum Tækniháskólans í ákveðinni óvissu. En hver skapaði þá óvissu? Var það ekki einmitt hæstv. menntamálaráðherra sem hratt atburðarásinni af stað? Í rauninni þurfti þessi atburðarás ekki að fara þessa leið heldur hefði einmitt átt að skoða málið frá fleiri hliðum.

Engu að síður er vert að leggja þunga áherslu á það að Frjálslyndi flokkurinn vildi skoða sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík með opnum hug og leggja því lið að sú sameining yrði gifturík fyrir framtíð tæknináms á Íslandi. Við í Frjálslynda flokknum leggjum áherslu á að efla tækni- og verknám og hefur okkur þótt skorta vissan skilning á því hjá stjórnarflokkunum, Framsóknar- og Sjálfstæðisflokki. Það hefur verið lögð ofuráhersla á bóknám á kostnað verk- og tæknifræðináms. Það hefur komið víða fram en einna best hjá Sjálfstæðisflokknum þar sem hann hefur lagt niður allt nám í undirstöðuatvinnugrein landsmanna, fiskvinnslunni. Ég hef reyndar hreyft því máli ítrekað á hinu háa Alþingi, að rétt sé að huga að því námi en engar fréttir berast af því að koma eigi því námi af stað á ný, en samt berast ítrekað fréttir af hinum og þessum hrókeringum. Það á að sameina Tækniháskólann og Háskólann í Reykjavík og ég tel vert að skoða það. Síðan á að setja upp sportskóla í Keflavík, en á meðan er eins og það skipti engu máli að ekkert nám fari fram í fiskvinnslu og nám í iðnmenntun og tæknimenntun. Ég tel að það eigi að veita því verðugri sess.

En á sama tíma er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins að búa til framsóknarlega sjóði til þess að auka virði sjávarfangs. Verið er að búa til sjóð sem heitir AVS-sjóðurinn, sem er skammstöfun fyrir aukið virði sjávarfangs. Í stað þess að hafa trú á menntun og koma á menntun, tæknimenntun í fiskvinnslu og undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar fer Sjálfstæðisflokkurinn þá leið að setja upp enn einn opinbera sjóðinn.

Það eru einkum þrír þættir sem við í Frjálslynda flokknum teljum að hefði mátt fara betur yfir í þessu máli. Í fyrsta lagi hefði mátt kanna með opnari hug sameiningu í frekari mæli við nám í Háskóla Íslands, en þar er fyrir verkfræði- og raunvísindadeild og veigamikil rök hníga í þá átt að þar næðust fram samlegðaráhrif sem gætu án efa eflt nám bæði í tæknifræði og verkfræði. Með þeim hætti væri hægt að efla ýmsa rannsóknaraðstöðu og tæknibúnað sem gæti nýst í vísindastörfum. Ef vel væri staðið að málum gæti það án efa leitt til betri nýtingar á fjármunum.

Þau rök sem hafa verið notuð gegn því eru að með því að sameina tæknifræðina í Háskóla Íslands væri komið í veg fyrir samkeppni. Með því að vera með verkfræði á tveim stöðum væri ákveðin samkeppni á milli skólanna. Þá hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson m.a. vitnað til þess að eitt það besta sem kom fyrir Háskóla Íslands, lögfræðideildina, hafi einmitt verið lögfræðideildin í Háskólanum í Reykjavík. En þar er auðvitað ekki líku saman að jafna vegna þess að verkfræðideild Háskóla Íslands og tækninámið í Tækniháskóla Íslands er náttúrlega í samkeppni við útlönd meðan lögfræðideildin í Háskóla Íslands — ég held að sú samkeppni sé nú takmörkuð nema þá ef til vill á framhaldsstigi.

Í öðru lagi lýtur gagnrýni okkar í Frjálslynda flokknum að rekstrarforminu, að hinn nýi skóli skuli vera rekinn í einkahlutafélagi. Gagnrýni okkar snýr ekki að rekstrarlegum forsendum, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og fleiri þingmenn hafa gefið í skyn. Sjálfur hef ég átt hlut í nokkrum einkahlutafélögum og rekið einkahlutafélög og þekki kosti þess og galla. Það fylgja þar líka ýmsir gallar, það er ekki eintóm sæla í slíkum rekstri eins og hefur komið fram hér. En við verðum að gæta að því að Háskóli Íslands er ekki eingöngu venjulegt fyrirtæki þar sem rekstrarlegar forsendur þurfa að ráða för. Þetta er ekki eins og sjoppa, fiskvinnsla eða kjötvinnsla.

Eitt meginverkefni háskóla fyrir utan kennslu er að stunda vísindarannsóknir þar sem óháð og gagnrýnin hugsun ræður för. Þar eru menn að ræða um akademískt frelsi. Hvað er akademískt frelsi? Það er svigrúm háskólakennara til þess að stunda rannsóknir sem þeir óska og að þeir rökstyðji þær fræðikenningar og þær kennisetningar á óháðan hátt.

Ég hef fulla trú á að eigendur Hástoðar, eigendur hins nýja sameinaða skóla, muni nýta áhrif sín til góðra verka. Ég tel hins vegar ómögulegt að líta fram hjá því að háskólakennarar sem stunda rannsóknir hjá hlutafélaginu Hástoð verði án efa gagnrýndir fyrir að kenningar þeirra og rannsóknir litist af viðhorfum og hagsmunum eigenda skólans. Andstæðingar kennisetninga þeirra munu vafalítið draga niðurstöður starfsmanna hlutafélagsins í efa á þeim forsendum. Með þessu gefur Háskólinn í Reykjavík höggstað á sér. Ég tel að Hástoð og Háskólinn í Reykjavík eigi að bregðast við þessu, rétt eins og þeir hafa brugðist við með því að setja inn í samþykktir hlutafélagsins að ekki skuli stofnað til þess að skila eigendunum arði. Þess vegna ættu þeir í raun að hafa forgöngu um samþykktir í samningum við kennara Háskólans í Reykjavík og hins sameinaða háskóla um að þar sé kennurum tryggt akademískt frelsi.

Ég tel einnig að menn hafi gert of mikið úr þeim þætti að um sé að ræða einkarekstur. Staðreyndin er sú að Háskólinn í Reykjavík er rekinn fyrir skattfé og í fjárlögum ársins 2005 kemur fram að til hans rennur um hálfur milljarður íslenskra króna og tæpar 700 millj. kr. til Tækniháskóla Íslands. Þetta verður eftir sem áður ríkisrekinn skóli sem hefur heimild til að innheimta skólagjöld. Við í Frjálslynda flokknum höfum vissar efasemdir um að auka eigi við skólagjöld. Hvers vegna? Jú, ástæðan er sú að við viljum efla tækninám. Við eigum ekki að leggja stein í götu þeirra sem ætla að stunda nám í tæknigreinum heldur reyna að hvetja fólk til að skrá sig í nám, einnig til að háskólinn standist samkeppni við stofnanir svipaðs eðlis, m.a. í Danmörku.

Spurningin er: Hvernig hyggst hæstv. menntamálaráðherra bregðast við ef hann sér að aðsókn dregst saman og skólagjöld draga úr aðsókn að náminu? Hyggst hann þá koma upp styrkjum til að hvetja unga og efnilega nemendur til að fara í tækninám? Við í Frjálslynda flokknum höfum trú á menntun og einkum teljum við að þessi menntun geti skilað þjóðfélaginu ávinningi.

Í lok ræðu minnar vil ég óska hinum nýja skóla velfarnaðar. Ég tel allar líkur á að frumvarpið verði samþykkt. Ég vona sannarlega að hann standi sig og skili þjóðfélaginu á Íslandi góðri menntun til framtíðar.