131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:48]

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú fer fram umræða um frumvarp til laga um afnám Tækniháskóla Íslands. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson fjallaði síðast um málið. Þannig háttar til á hinu háa Alþingi að venju samkvæmt eru álit nefnda lögð fram við 2. umr. Þá kemur fram vilji meiri hluta nefndar en minni hlutinn getur verið í einu lagi eða fleiri hlutum. Í þessu máli háttar þannig til að í nefndinni eru 1. minni hluti og 2. minni hluti.

Það kemur hins vegar ekki fram í nefndarstarfinu hver skoðun Frjálslynda flokksins er í málinu. Ég tók eftir því í máli hv. þingmanns áðan að hann óskaði skólanum velgengni. Má ég skilja það þannig að hv. þingmaður og Frjálslyndi flokkurinn ætli að styðja frumvarpið þegar til atkvæðagreiðslu kemur?

Mér fannst hv. þingmaður fara eilítið út í önnur mál menntakerfisins eins og fiskvinnsluna og iðnmenntun, sem er gott mál í sjálfu sér og allt í lagi með það. En mig langar að fá að heyra hver skoðun Frjálslynda flokksins er, þar sem þeir hafa hvorki verið með á áliti meiri hluta né 1. og 2. minni hluta.