131. löggjafarþing — 80. fundur,  24. feb. 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[15:19]

Guðrún Inga Ingólfsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Frumvarp það er hér er til umræðu er fagnaðarefni. Það er ljóst að nýr sameinaður háskóli sem hér liggur fyrir tillaga um að stofna undir nafni Háskólans í Reykjavík mun efla verk- og tæknimenntun í landinu, nemendum, starfsfólki og atvinnulífinu til framdráttar. Hinn sameinaði háskóli verður öflugri í starfsemi en Háskólinn í Reykjavík og Tækniháskólinn voru hvor í sínu lagi, með minni yfirbyggingu og skýra sérstöðu innan háskólasamfélagsins. Nemendur munu fá fjölbreyttari menntun, starfsfólk betri starfsaðstöðu og atvinnulífið betur undirbúna framtíðarstarfsmenn. Það er að mínu viti kjarni málsins.

Lengi hefur verið rætt um það í þjóðfélaginu að leita eigi leiða til að efla tæknimenntun á Íslandi. Nú hefur Alþingi tækifæri til að leggja grunn að öflugum háskóla sem mun bjóða upp á fyrsta flokks tækni- og verkfræðimenntun með traustum tengslum við atvinnulífið. Tæknimenntun er samnefnari yfir margs konar menntun og hinn nýi háskóli mun bjóða upp á fjölbreyttar námsleiðir, allt frá fagtengdri rafiðnaðarfræði að verkfræði.

Ekki aðeins munu nemendur hins nýja háskóla njóta góðs af tilkomu hans heldur munu verkfræðinemendur við Háskóla Íslands líka gera það vegna samkeppninnar. Þrátt fyrir að verkfræðideild Háskóla Íslands bjóði í dag upp á úrvalskennslu í verkfræði mun það gera deildinni gott að hafa eitthvað til að bera sig saman við og um leið skerpa áherslu sína.

Það er nærtækt að líta til þess hvað átti sér stað í lagadeild HÍ þegar lagadeild HR kom til sögunnar. Þótt námið við HÍ væri fyrsta flokks fyrir jókst úrval valnámskeiða og sveigjanleiki í námi sömuleiðis. Niðurstaðan er enn betri íslenskir lögfræðingar með fjölbreyttari bakgrunn en áður þekktist. Nýr sameinaður skóli sem hér er til umræðu mun á sama hátt skila okkur fleiri verk- og tæknimenntuðum einstaklingum að nokkrum árum liðnum, bæði frá HR og HÍ.

Frumkvæðið að sameiningu þessara tveggja háskóla kom frá hæstv. menntamálaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, þar sem hún ásamt forsvarsmönnum skólanna tveggja hafði þá sýn að skapa öflugan háskóla sem væri samkeppnisfær á alþjóðlegum háskólamarkaði. Markmiðið var að bjóða upp á nám í rekstrardeild, tæknideild, lagadeild og kennslufræðideild auk frumgreinadeildar. Þetta á að vera háskóli sem skapar sér sérstöðu með traustum tengslum við atvinnulífið. Bakhjarlar skólans eru Verslunarráð, Samtök iðnaðarins og Samtök atvinnulífsins og munu þessir aðilar koma að skipan háskólaráðs hins nýja skóla. Þar sem hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er kona athafna var þegar gengið í að hrinda sameiningu skólanna tveggja í framkvæmd eftir að vilji forsvarsmanna skólanna tveggja var ljós. Meginlínurnar voru lagðar en svo var fagfólki sem þekkir vel til háskólanna tveggja treyst til að framkvæma enda hefur það góða starfsfólk bestu þekkinguna til að móta nákvæma útfærslu sameiningarinnar.

Meginhluti umræðunnar fór fram um rekstrarform hins nýja sameinaða skóla. Komist var að þeirri niðurstöðu að hlutafélagaformið hæfði skólanum best með aðkomu aðila tengdum atvinnulífinu sem eru bakhjarlar í formi hlutafjáreignar. Að hafa hlutafélagaformið á rekstri þýðir ekki sjálfkrafa að hörð arðsemismarkmið ráði ferð, heldur að bakhjarlar eigi skýra aðkomu að stjórn með ákveðinn hlut en jafnframt skýrar skyldur og ábyrgð. Þetta er mikilvægt atriði, ekki síst ef um frekari uppbyggingu skólans verður að ræða sem getur krafist t.d. aukinna fjárfestinga.

Áhrif stúdenta á stjórn skólans og gæði námsins eru svo m.a. í gegnum skólagjöldin. Það er öflugasta aðhald á skólastjórnendur í háskóla með þessu rekstrarfyrirkomulagi.

Framgangur málsins er nú í höndum Alþingis og vona ég að sem flestir þingmenn sjái kjarna þess sem er sá að nýr öflugur háskóli mun taka til starfa næsta haust ef Alþingi greiðir götu þessa máls.