131. löggjafarþing — 81. fundur,  2. mars 2005.

Samræmd próf í grunnskólum.

566. mál
[15:26]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er hreyft afar merkilegu máli þegar tekið er á þeirri samþykkt sem Félag grunnskólakennara gerði núna fyrir ekkert löngu síðan. Ég hef verið þeirrar skoðunar að einhverjar mælistikur þurfi á starfsemi grunnskólanna. Hvort það eru núverandi samræmd próf eða eitthvert annað fyrirkomulag þarf að ræða faglega.

Ég fer fram á það við hæstv. menntamálaráðherra að eftir þá skoðun sem hún hlýtur að fara í með sérfræðingum sínum og fagaðilum í framhaldi af samþykkt grunnskólakennara fái þingið munnlega skýrslu um málið og það verði tekið aftur á dagskrá. Það er augljóst eftir þessa stuttu umræðu hér að við þurfum að taka hana upp aftur og mun ítarlegar en hér hefur verið gert.