131. löggjafarþing — 83. fundur,  3. mars 2005.

Afnám laga um Tækniháskóla Íslands.

398. mál
[14:57]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Við lok 3. umr. vil ég þakka þingheimi og öllum þingmönnum fyrir góða umræðu hér í dag og líka við fyrri umræður um þetta afar mikilvæga mál sem varðar sameiningu Tækniháskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík. Það er ekkert óeðlilegt að menn hafi skiptar skoðanir á jafnstóru máli og þessu og finnst mér þingmenn allir hafa farið mjög vel yfir málflutning sinn og þar með rökstuðning.

Engu að síður eru nokkrar spurningar í þessari umræðu sem var beint til mín og mun ég svara þeim eftir fremsta megni en ég vil einnig undirstrika að mörgu af því sem hefur verið sett fram hér hef ég þegar svarað bæði við 1. og 2. umr. Í rauninni má taka undir orð hv. þm. Gunnars I. Birgissonar, formanns menntamálanefndar, mörgu af því sem var sett fram hér í dag í spurnarformi hefur þegar verið svarað, margoft veit ég á vettvangi menntamálanefndar, til að mynda í gærmorgun þegar rektor Háskólans í Reykjavík og fleiri komu á fund menntamálanefndar. Þar var mörgum spurningum svarað eins og varðandi rekstrarformið.

Rétt aðeins varðandi rekstrarformið, ég tel að það hafi sérstaklega verið undirstrikað að það komi ekki til með að verða nein ógnun við hið akademíska frelsi og það er kannski kjarni málsins í sambandi við alla þessa umræðu, þ.e. þetta traust sem menn bera til stjórnenda háskóla, hvort sem stjórnendur háskóla eru undir sjálfseignarstofnunarfyrirkomulagi eða einkahlutafélagsformi eins og hinn nýi háskóli kemur til með að starfa. Velgengni, framfarir og velsæld hins nýja háskóla kemur auðvitað til með að velta á því hvort hið akademíska frelsi verði virt. Þetta vita stjórnendur hins nýja háskóla og leggja mikla, þunga og ríka áherslu á að hið akademíska frelsi komi til með að ríkja innan þessa nýja og öfluga háskóla. Þetta snýst allt um traust, líka traust af hálfu stjórnarandstöðunnar til þeirra sem stjórna hinum nýja háskóla.

Ég ber nákvæmlega sama traust til stjórnenda hins nýja háskóla og annarra háskóla hér á landi, hvort heldur það eru ríkisháskólar eða aðrir háskólar eins og Viðskiptaháskólinn á Bifröst sem hv. þingmaður Björgvin G. Sigurðsson vitnaði til, en dregið var fram að rektor þess háskóla, og flokksfélagi hv. þingmanns, telji að sjálfseignarfyrirkomulagið sé hið eina sanna og rétta. Það er ekki slæmt fyrirkomulag en ég tel engu að síður að einkahlutafélagsformið komi til með að standa fyrir sínu og leiði til þess að það verði mjög öflug menntastofnun sem starfi undir þeim formerkjum sem hinn nýi háskóli kemur til með að gera. Þetta snýst allt um traust og að sjá samhengi hlutanna. Menn átta sig alveg á því þar að akademískt frelsi er nauðsynlegt fyrir þann háskóla ef hann ætlar að fá til sín nemendur. Það sem veltur á hjá honum er að laða til sín nemendur og ef menn sjá að ekki er rétt staðið að málum á þeim bæ fara menn einfaldlega annað. Af hverju geta menn farið annað? Menn geta farið annað af því að komin er á samkeppni í háskólanámi hér á landi. Margir háskólar eru komnir til sögunnar. Eins og margoft hefur verið ítrekað af minni hálfu dettur slík samkeppni og fjölbreytni í háskólamálum ekki af himnum ofan heldur verður einfaldlega til vegna skýrrar pólitískrar stefnu með það að markmiði og leiðarljósi að fjölga tækifærum ungs fólks til háskólamenntunar. Því miður verður það að segjast eins og er að við í stjórnarflokkunum höfum staðið ein að þeirri stefnumörkun því ljóst er að ekki hafa allir haft sömu sýn og við og þann pólitíska kjark sem þarf til að segja: við látum fjármagnið fylgja hverjum nemanda. Við sögðum það ótrauð og gerum það enn.

Ég vil drepa á nokkur atriði sem komið hafa til umræðu í dag, m.a. af hálfu hv. þm. Ögmundar Jónassonar þar sem hann fór á mjög athyglisverðan hátt yfir þá hugsun hvert fjármagnið væri að fara og ræddi m.a. hvort fjármagnið færi ekki þangað sem atvinnulífið vildi. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu. Svipaða ræðu hélt hv. þingmaður á sínum tíma þegar við ræddum stofnun vísinda- og tækniráðs. Ég man að þá kom hv. þm. Ögmundur Jónasson fram með efasemdir um að það væri rétt leið, m.a. í ljósi þess að grunnrannsóknirnar mundu hugsanlega líða fyrir það að vera í svokallaðri samkeppni við hagnýtar rannsóknir því að atvinnulífið og fjármagnið mundu beina kröftum sínum inn í hinar hagnýtu rannsóknir.

Hvað hefur komið á daginn? Það sem komið hefur á daginn er að vísindanefnd hefur einmitt styrkt grunnrannsóknir í úthlutunum sínum. Öll þessi tortryggni hv. þm. Ögmundar Jónassonar í garð nýs fyrirkomulags átti ekki við rök að styðjast á sínum tíma. Það sama á auðvitað við í þessu máli, við verðum að bera traust til þeirra sem standa að þessum háskóla og átta okkur á að við erum ekki að dreifa kröftunum, eins og var kannski útgangspunkturinn hjá hv. þingmanni, heldur erum við að reyna að efla háskólasamfélag okkar, reyna að styrkja það um leið og við erum líka að reyna að auka samkeppnina, samkeppni sem hefur leitt af sér gríðarlega góða og merka hluti, til að mynda á sviði lögfræði. Ég vil ekki meina að það séu of margir háskólar sem kenna lögfræði eða sjá um að útskrifa kennara, síður en svo. Ég held að þetta sé allt af hinu góða. Við verðum líka að hafa í huga forsöguna að þessu máli sem er m.a. sú að Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík komu að máli við okkur í ráðuneytinu með svipuð markmið, svipaðan metnað í huga, þ.e. að efla tækninám, efla verkfræðinám hér á landi. Þess vegna var afar eðlilegt að skoða hvort þessir háskólar gætu unnið saman og enn betra ef þeir gætu sameinast. Þetta var m.a. ein af þeim ástæðum sem varð til þess að við erum að ræða þá niðurstöðu sem við erum að gera í dag.

Ég hef líka fengið fyrirspurnir varðandi nýtingu fjármagnsins og efasemdir um að til sé nægjanlegt fjármagn vegna fjölgunar meistaranema. Það er alveg ljóst að það þarf að efla og auka meistaranám hér á landi og við höfum verið að gera það á undanförnum árum. Háskóli Íslands hefur í mjög ríkum mæli farið út í það að fjölga meistaranemum innan síns geira og það er afar jákvætt. Ég vil minna á að um þetta er samið í kennslu- og rannsóknarsamningum á milli Háskóla Íslands og ráðuneytisins. Það er síðan Háskóla Íslands, sem er sjálfstæður háskóli, að dreifa fjármagninu innan síns ramma, inn í deildirnar eins og hann telur réttast að beina því. Háskóli Íslands hefur mikið sjálfstæði í þeim efnum og sérstaklega í gegnum það dreifilíkan sem hann styðst við innan síns ramma.

Rétt aðeins út af sportakademíunni og varðandi þann þátt sem snertir íþróttakennaramenntunina og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á. Þar er um svokallaða lýðheilsugrein að ræða sem hinn sameinaði háskóli Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands kemur til með að standa fyrir. Ég lýsti því yfir strax við 1. umr. að ég sé ekki að þetta sé nein ógnun við Kennaraháskóla Íslands og íþróttadeildina innan hans, síður en svo, heldur miklu frekar að það sama gerist þar og gerst hefur t.d. í Háskóla Íslands þegar greinar hafa fengið samkeppni að þær komi til með að eflast. Ef eitthvað er þá eigum við eftir að sjá enn fjölbreyttari flóru á sviði íþróttakennaramenntunar, enda er sá markaður í rauninni mjög að breytast. Við sjáum fram á mikla og aukna þörf á ýmsum sviðum varðandi fræðslu t.d. innan heilsuverndarinnar og almannaþjónustunnar. Það er kallað eftir fólki með aukna menntun á sviði lýðheilsu og ég held að þessi nýi háskóli komi til með að svara þeim þörfum með ágætum.

Ég held að ég hafi farið nokkurn veginn yfir þær vangaveltur sem komu fram og þær spurningar sem til mín var beint í umræðunni áðan. Það er ljóst að við stöndum á ákveðnum tímamótum. Við höldum áfram að þróa og efla okkur á sviði háskólamála, við höldum menntasókn okkar áfram. Því er þetta í rauninni mikill gleðidagur fyrir okkur, hæstv. forseti, og ég þakka þingheimi enn og aftur fyrir ágæta umræðu í þessu merkilega og góða máli.