131. löggjafarþing — 84. fundur,  7. mars 2005.

Framtíð Reykjavíkurflugvallar.

[15:51]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Í þessari utandagskrárumræðu verður því ekki ráðið til lykta hver verða endanleg örlög Reykjavíkurflugvallar, enda hef ég grun um að málshefjandi veki ekki máls á þessu til að fá niðurstöðu í því máli heldur öðru eins og ég kem að síðar.

Þótt örlög Reykjavíkurflugvallar verði ekki ráðin í þessari umræðu gætum við tekið ákvörðun um að um að standa öðruvísi að skipulags- og samgöngumálum en við gerum, og þá þannig að eitt rekist ekki á annars horn. Flugvöllur í Reykjavík fjallar ekki einvörðungu um byggð í miðborginni, hann fjallar ekki aðeins um flugsamgöngur almennt, hann fjallar um samgöngur í landinu öllu. Þar er ég kominn að kjarna máls.

Þessi umræða fjallar ekki um Reykjavíkurflugvöll. Hún fjallar um uppbyggðan hálendisveg á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Menn eiga að koma hreint fram og setja málin fram með þeim hætti. Ég hvet til þess að nú verði stofnað til umræðu í landinu um nákvæmlega þetta efni. Vilja Íslendingar byggja uppbyggðan hálendisveg á milli Reykjavíkur og Akureyrar? Um það fjallar þessi umræða.