131. löggjafarþing — 85. fundur,  8. mars 2005.

Mælendaskrá í athugasemdum um störf þingsins.

[13:59]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað aðeins til að vekja athygli þingheims á ansi merkilegri yfirlýsingu sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra. Hann upplýsir okkur hér og nú um að hann viti ekki um skýrslu frá Samkeppnisstofnun til einkavæðingarnefndar sem dagsett er 7. apríl árið 2000 vegna sölu Landssíma Íslands hf. Í þessari skýrslu segir m.a., með leyfi forseta, í niðurstöðum:

„Að mati Samkeppnisstofnunar getur það haft alvarleg áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaðnum ef ekki er gripið til sérstakra hliðaraðgerða við sölu Landssímans.“

Hverjar eru þær hliðaraðgerðir? Það er bent á tvær leiðir, aðskilja grunnnetið við sölu eða skikka Landssímann til að selja frá sér breiðbandið. Svo er vitnað í nýlegt mál ekki langt frá okkur, þ.e. samrunamál Telia og Telenor, þar sem framkvæmdastjórn ESB setti samrunanum ákveðin skilyrði.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að þetta er mjög merkilegt mál og innlegg hæstv. forsætisráðherra í þessa umræðu. Að því leytinu til hefur hún verið mjög gagnleg, við höfum verið upplýst um að forsætisráðherra sjálfur veit ekki um tilurð þessarar skýrslu (Gripið fram í: Hvaða umræða er …?) Ég veit ekki alveg hvaða umræða er í horninu en það er reyndar annar handleggur. Forsætisráðherra veit ekki um tilurð þessarar skýrslu, og má ég þá spyrja hæstv. forsætisráðherra: Voru þessi gögn ekki lögð fram t.d. á landsfundi Framsóknarflokksins?