131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Urriðastofnar Þingvallavatns.

346. mál
[12:00]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Fyrirspurnin sem ég legg fyrir hæstv. forsætisráðherra er að vísu orðin nokkuð gömul. Hún var fyrst lögð fram í maí á síðasta ári en þá vannst ekki tími til að afgreiða hana áður en þingi lauk. Ég lagði hana aftur fram þann 18. nóvember síðastliðinn og síðan hafa vikurnar og mánuðirnir liðið en nú er loks komið að því að þessari fyrirspurn verði svarað. Þessi fyrirspurn hljóðar svo:

Hvað er að frétta af störfum nefndar sem Alþingi fól ríkisstjórninni 3. mars 1998 að skipa og gera átti tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns?

Ástæðan fyrir því að ég ber fram þessa fyrirspurn er sú að ég hnaut um það í fyrra þegar ég var að lesa gömul þingskjöl að á sínum tíma hefði verið afgreidd þingsályktunartillaga með miklum glans sem hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera tillögur um leiðir til að endurreisa urriðastofna Þingvallavatns.“

Flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu voru hv. þm. Guðni Ágústsson, sem þá var formaður landbúnaðarnefndar en er núna landbúnaðarráðherra, hv. þm. Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Árni M. Mathiesen, sem nú er sjávarútvegsráðherra. Landbúnaðarnefnd samþykkti þessa tillögu einróma á sínum tíma og hún var síðan afgreidd í lokaatkvæðagreiðslu, samhljóða af þingmönnum sem þá voru á þingi.

Ástæðan fyrir því að Alþingi ályktaði að fela ríkisstjórninni að skipa þessa nefnd er sú að mörg undanfarin ár hafa farið fram miklar umræður um þennan merka fiskstofn, Þingvallaurriðann, bæði á Alþingi og líka í þjóðfélaginu. Fram hafa komið fyrirspurnir og þingsályktunartillögur, fyrirspurnir sem hefur verið svarað og síðan þingsályktunartillögur sem ekki höfðu fengið afgreiðslu árið 1992. Síðan var þessi ályktun afgreidd í mars árið 1998 og þá hefði mátt ætla að málið væri komið í góðan farveg. En mér hefur, þrátt fyrir mikla vinnu og yfirlegu í ýmsum gögnum og lestur góðra bóka, ekki tekist að koma auga á neitt varðandi störf þessarar nefndar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að skipa. Því spyr ég réttilega hæstv. forsætisráðherra: Hvað er að frétta?