131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stöðvun á söluferli Landssímans.

530. mál
[12:27]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra sem fer með efnahagsmál og er yfirmaður einkavæðingarnefndar og verkstjóri í ríkisstjórninni hvort það komi til greina að undirbúningur að sölu Landssímans verði stöðvaður til að ráðrúm gefist til að kanna kosti þess að sameina aðila um rekstur á einu grunnneti fjarskipta og gagnaflutnings í landinu.

Við stöndum frammi fyrir því að verði Landssíminn seldur með grunnnetinu eins og nú horfir mun verða til í landinu tvöfalt að hluta til einkavætt gagnaflutningskerfi með gríðarlegum tilkostnaði og bætist þá við mikil offjárfesting og sóun í fákeppnisumhverfi sem einkavæðing Landssímans mun beinlínis stuðla að. Það verða engir aðrir en neytendur sem borga þann brúsa. Samkeppnin kemur þá til með að snúast fyrst og fremst um þéttbýlustu svæði landsins og veruleg hætta er á að fólk í öðrum byggðarlögum verði afskipt nema til komi sérstakur ríkisstuðningur og há notendagjöld til að knýja fram lágmarksþjónustu þegar fram í sækir.

Þess vegna tel ég miklu vænlegra að einkaaðilar geti keppt um að veita þjónustu á jafnræðisgrundvelli á grunnneti sem taki til landsins alls og tryggi landsmönnum öllum sambærilega fyrsta flokks þjónustu án tillits til búsetu. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum því gert kröfu um það á Alþingi að vinna við undirbúning að sölu Landssímans verði stöðvuð og kannaðir verði möguleikar á að sameina öll grunnnet fjarskipta í landinu í eitt öflugt gagnaflutningsnet. Mikilvægi fjarskipta netsins er eins og vegakerfisins. Það tengir landsmenn saman, skapar grundvöll fyrir hin fjölbreyttu samskipti sem eru grunnur jafnræðis í búsetu og atvinnurekstri um allt land. Væri vel hægt að hugsa sér hliðstæða skipan varðandi fjarskiptanetið, öflugt flutningskerfi í opinberri eigu sem allir gætu nýtt sér á jafnréttisgrunni. Vegagerðin fer t.d. með uppbyggingu, viðhald og þjónustu við vegakerfið ásamt sveitarfélögunum. Það væri tilvalið að koma á hliðstæðri skipan með fjarskiptin. Við markaðsvæðingu raforkukerfisins var t.d. valið að hafa eitt flutningsnet, Landsnet raforku og allir raforkuframleiðendur hafa aðgang að því.

Frú forseti. Grunnnet fjarskipta í landinu eru enn að langmestu leyti í eigu opinberra aðila, þ.e. í eigu Símans, Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Því er ríki og sveitarfélögum í lófa lagið að sameina þessi þjónustufyrirtæki í eitt öflugt fyrirtæki. Þessa dagana eru t.d. Orkuveita Reykjavíkur og Síminn að leggja ljósleiðara hvort fyrir sig hlið við hlið inn í hús í Reykjavík. Sér hver heilvita maður hvaða hagkvæmni er í því enda segir Eva Magnúsdóttir upplýsingafulltrúi Símans í Morgunblaðinu 13. febrúar síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Það getur aldrei verið hagkvæmt að leggja tvö ljósleiðarakerfi hlið við hlið þegar neytandinn nýtir aldrei nema annað þeirra ...“

Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort ekki sé rétt að staldra hér við og kanna hvort sameina megi þessi (Forseti hringir.) grunnnet, sem eru hvort eð er í opinberri eigu að langmestu leyti, í eitt öflugt landsnet.