131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Hjartaþræðingar á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri.

585. mál
[13:11]

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst taka undir það að á Akureyri eru mjög hæfir og góðir stjórnendur við sjúkrahúsið. Þeir hafa raðað málum sínum í forgangsröð og þetta mál er eitt af þeim sem þeir hafa skoðað en ég endurtek að efling krabbameinslækninga er númer eitt á forgangslista þeirra. Við höfum skoðað það með þeim og teljum að það mundi bæta þjónustuna mest á þessu svæði að efla þær.

Hér hefur verið til umræðu hvort þetta sé nægilega mikill fjöldi og hvort menn haldi sér í þjálfun með 237 aðgerðum á ári. Það er ljóst að þetta mundi nægja til þess, menn mundu ekki detta úr þjálfun. Hins vegar þarf að vera aðgangur strax í upphafi að lækni sem hefur farið í gegnum 5.000 þræðingar. Það þarf að vera aðgangur að slíkum manni strax ef hefja ætti þræðingar þarna því í þessu má ekkert mistakast. Þetta er það viðkvæm aðgerð að þarna þarf að vera mjög þjálfaður starfskraftur fyrir hendi strax í upphafi. Ég endurtek að forustumenn sjúkrahússins hafa verið að skoða hinn hagræna þátt í þessu en krabbameinslækningarnar eru í forgangi hjá okkur í augnablikinu og að ljúka innréttingu þeirra þriggja hæða sem eftir var að klára við spítalann og er nú þegar byrjað að vinna að því verki.