131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Akstur undir áhrifum fíkniefna.

598. mál
[13:22]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað þessum spurningum þingmannsins um það hvað hugsanlega væri að gerast á þessu sviði frekar en öðrum. Ég get hins vegar svarað því að þetta hefur verið rannsakað, eins og ég sagði. Ég tel mun meira að marka rannsóknina en orðspor sem þingmaðurinn hefur heyrt um þetta. Það kemur fram í þessum rannsóknum að 88 brot voru skráð í málaskrá á síðasta ári og í 70 tilvikum var tekin blóð- eða þvagprufa o.s.frv. Þetta liggur alveg skýrt fyrir og vefst ekki fyrir mönnum hvernig eigi að taka á þessu þegar grunur er um brot af þessu tagi.