131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Stúlkur og raungreinar.

371. mál
[15:31]

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Önnu Kristínu Gunnarsdóttur fyrir að taka þetta upp. Það er sannarlega ástæða til að finna leiðir til að hvetja stúlkur sérstaklega til náms í raungreinum.

Hæstv. ráðherra sagði að góðar fyrirmyndir skiptu verulegu máli og ég er sannfærð um að góður árangur Rannveigar Rist hjá Ísal og nýráðinn forstjóri Flugleiða er góð hvatning til kvenna til að fara þessar leiðir þegar námsbraut er valin. Þær eru góðar fyrirmyndir.