131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:37]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Fyrir liggja ákveðnar staðreyndir. Í fyrsta lagi að það er stefna ríkisstjórnarinnar að byggja upp byggðakjarna á Vestfjörðum og að Ísafjörður verði þar þungamiðja.

Í öðru lagi að störfum á Vestfjörðum hefur fækkað mjög mikið á síðustu árum, á árunum 1990–1997 fækkaði störfum um 19%.

Í þriðja lagi er fjöldi opinberra starfa á Vestfjörðum með því lægsta sem gerist á landinu og þyrfti að fjölga störfum á vegum hins opinbera um 130 á Vestfjörðum til þess að fjöldi þeirra næði sama hlutfalli og er á landinu í heild.

Í fjórða lagi liggur fyrir að menntunarstigið er lágt, sérstaklega þar sem ekki eru starfandi háskólar.

Í fimmta lagi liggur fyrir að hlutfall dagskólanemenda af Vestfjörðum er það lægsta á landinu og að óvíða eru fleiri fjarnemendur en einmitt þar, en talið er að um 160 manns sem búsettir eru á Vestfjörðum stundi háskólanám með fjarnámssniði.

Öll þessi atriði leiða okkur að því að stofnun háskóla á Ísafirði mundi gagnast vel til að styrkja byggðina þar, efla Ísafjörð sem byggðakjarna, sem er stefna ríkisstjórnarinnar, og verða þjóðinni í heild til heilla þar með.

Síðastliðið sumar tók ungt fólk á Vestfjörðum sig saman um táknræna stofnun háskóla á Vestfjörðum og sýndi þar með hug sinn til málsins, en unga fólkið er afl komandi tíma og unga fólkið á Vestfjörðum gerir kröfu um háskóla á Ísafirði.

Morgunblaðið tók málið upp í leiðara síðasta sumar, þann 18. júlí, og þar segir, með leyfi forseta:

„Við athöfnina á Ísafirði voru flestir þingmenn Norðvesturkjördæmis staddir. Þeir eiga nú að taka höndum saman, taka unga fólkið á orðinu og vinna að stofnun Háskóla Vestfjarða.“

„Nú verður horft til þingmanna þessa landshluta um að taka við því merki, sem vestfirskt æskufólk hefur hafið á loft og bera það fram til sigurs.“

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þá fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra um hvort hún muni beita sér fyrir stofnun háskóla á Ísafirði og slást í för með okkur sem viljum taka áskorun Morgunblaðsins.