131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:45]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég verð að segja að svör ráðherra hæstv. valda mér vonbrigðum. Ég veit að það er ekki eining um það á Vestfjörðum að fara þá leið sem hæstv. ráðherra lýsti. Vilji Vestfirðinga er að þeir fái sinn eigin háskóla og hafandi reynt hve mikilvægt það er fyrir byggðarlag að hafa háskólastarfsemi, eins og við höfum upplifað í Skagafirði með Hólaskóla, þá skil ég mætavel óskir Vestfirðinga og styð þá eindregið í kröfum sínum og eindregnum óskum um að stofnaður verði sjálfstæður háskóli á Vestfjörðum. Það hefur sannast í starfsemi Hólaskóla að hægt er að reka fullkomlega góða rannsókna- og vísindastarfsemi í lítilli stofnun. Ráð lítilla skóla er einfaldlega það að taka upp samstarf við aðra skóla og stofnanir.

Ég ítreka að ég óska þess (Forseti hringir.) að hæstv. ráðherra hlusti á óskir heimamanna, (Forseti hringir.) ekki einungis þeirra sem sitja í nefndum fyrir hana.