131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Háskóli á Ísafirði.

522. mál
[15:47]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hún var eftirminnileg, þverpólitísk samstaða ungs fólks á Vestfjörðum í fyrrasumar þegar ályktað var um stofnun háskóla á Ísafirði. Ég tek undir þá kröfu og styð heils hugar að stofnaður verði háskóli á Ísafirði sem hvíli á sérkennum og sérstöðu byggðarlagsins. Ég tel að stofnun þekkingarseturs sé allt of stutt skref, nema það sé fyrsta skref í átt að stofnun háskóla á Ísafirði.

Það er nauðsynlegt að ganga alla leið og stofna sérstakan háskóla. Einungis þannig næst markmiðið um að skapa samfélag í kringum það sem skilar sér til byggðarlagsins eins og að er stefnt. Stofnun háskóla á Ísafirði væri eitt af stærstu skrefunum sem hægt væri að taka til að efla varanlega og verulega byggð á Vestfjörðum. Það skref verður aldrei tekið með því að stofna þekkingarsetur. Það verður einungis tekið með því að stofna sérstakan háskóla á Ísafirði. Ég tek undir með þeim hv. þingmönnum sem talað hafa í þá veru og (Forseti hringir.) unga fólkinu á Vestfjörðum.