131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Samningur um menningarmál.

541. mál
[15:57]

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Á aðalfundi Eyþings sem haldinn var í Mývatnssveit í ágúst 2002 voru menningarmál fyrirferðarmikil. Flutt voru nokkur framsöguerindi um menningarmál, þar á meðal á vegum Tómasar Inga Olrichs, þáverandi menntamálaráðherra, sem flutti erindi um landshlutasamninga um menningarmál. Það má eiginlega orða það svo, virðulegi forseti, að þáverandi menntamálaráðherra hafi gefið upp boltann og síðan hafi verið unnið eftir því. En því miður hefur ekki allt of mikið gerst í því máli, eins og ég ætla að reyna að fara yfir á þessum stutta tíma.

Í máli ráðherra var dregin upp jákvæð mynd af landshlutabundnum samningum þar sem verkefni og ábyrgð væru flutt frá ríki til sveitarfélaga. Allt var það mjög fallega sagt og á aðalfundinum var m.a. samþykkt að skipaður yrði starfshópur til að vinna að undirbúningi gerðar samnings við menntamálaráðuneytið um eflingu menningarstarfs á svæðinu. Þetta var í lok ágúst 2002.

Þá var skrifað bréf frá Eyþingi til menntamálaráðuneytis sem brást skjótt við á þeim tímapunkti, tók það aðeins einn eða tvo mánuði að senda ágætan fulltrúa, skrifstofustjóra úr menntamálaráðuneytinu, Karitas H. Gunnarsdóttur, til fundar sem haldinn var 14. apríl 2003, korteri fyrir kosningar ef svo má að orði komast, svona til þess að fólk átti sig á tímanum.

Það var ánægjulegur fundur. Þar var farið yfir þessi mál og fulltrúi ráðuneytisins kallaði m.a. eftir stefnumótun sveitarfélaga í menningarmálum, eftir því að þau sýndu frumkvæði og settu sér langtímaáætlanir. Hún hvatti eindregið til þess að öll sveitarfélög á svæði Eyþings ynnu saman að þessu verkefni.

Í bréfi frá ráðuneytinu sagði, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðuneytið er reiðubúið til viðræðna um samstarf við Eyþing á grundvelli sérstaks samnings sem byggist á sömu grundvallarsjónarmiðum og samningur ráðuneytisins við sveitarfélög á Austurlandi.“

Í framhaldi af þeim fundi var skipuð fjögurra manna nefnd sem hefur unnið vel og skipulega að þessu starfi frá þeim tíma. Margt hefur gerst og málið var líka tekið upp á fundi Eyþings 2004. En það má segja að Eyþing og sú nefnd sem þar hefur verið kosin hafi náð algjörri samstöðu meðal sveitarfélaganna í Norðausturkjördæmi um niðurstöðu í málinu á svæði Eyþings. Sem er mjög gott mál.

Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. menntamálaráðherra er einfaldlega þessi:

1. Hvað líður gerð samnings um menningarmál milli menntamálaráðuneytis og Eyþings?

2. Hvenær er áætlað að skrifa undir slíkan samning?