131. löggjafarþing — 86. fundur,  9. mars 2005.

Samningur um menningarmál.

541. mál
[16:05]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Það má hugsanlega finna til vorkunnar með hæstv. ráðherra fyrir að sitja uppi með kosningaloforð frá fyrirrennara sínum í embætti menntamálaráðherra, en eins og fram kom hér áður reið hann um héruð og lofaði menningarsamningum rétt fyrir síðustu kosningar. Meðal þeirra sem fengu slíkt loforð voru Vestlendingar og samningur við þá hefur verið tilbúinn æðilengi og vantar ekkert nema undirskrift hæstv. ráðherra.

Nú upplýsir hæstv. ráðherra að það eigi að taka upp samningaviðræður og ég ætla þá rétt að vona að þær viðræður verði ekki látnar taka allt of langan tíma þannig að komið verði fram yfir næstu kosningar þegar á ný verður hafist handa við að reyna að fá fram undirskrift.

En samningurinn við Vestlendinga er tilbúinn og búinn að vera það í langan tíma og ég veit að þeir telja sig sárt (Forseti hringir.) svikna í viðskiptum sínum við menntamálaráðuneytið.