131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Framkvæmd samkeppnisreglna EES-samningsins.

617. mál
[11:44]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér ræðum við mjög athyglisvert og mjög mikilvægt málefni sem er spurningin um framsal fullveldis Íslands. Þetta var rætt ítarlega þegar EES-samningurinn var samþykktur á sínum tíma og þótti sumum þá gengið fram á ystu nöf. Við ræðum hér tvö mál, í fyrsta lagi þær þingsályktunartillögur sem við ræðum nú og síðan var frumvarp til samkeppnislaga rætt á þriðjudaginn. Þar var þetta líka rætt, þ.e. hvort við værum að framselja vald með ákveðnu ákvæði þar.

Mér líst mjög vel á hugmynd hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur að þær tvær nefndir sem fjalla um þessi mál fundi saman um þetta, því þetta er það stórt mál. EES-samningurinn er uppsegjanlegur og utanríkisráðherra hæstv. á hverjum tíma getur með atbeina Alþingis sagt þeim samningi upp. Þar af leiðandi ef einhverjum finnst við ganga nærri fullveldinu, þá getum við sagt honum upp.

Það sem mig langar til að stinga upp á að verði athugað er hvort hægt sé að setja í þær greinar þar sem þetta er til umfjöllunar í lagasetningu einhverja samtengingu við samninginn og að þessi viðkomandi ákvæði falli niður ef samningnum verði sagt upp, þannig að það liggi fyrir að það sé alltaf heimilt að segja samningnum upp og þar með detti þetta ákvæði niður og Ísland fái þá óskorað fullveldi ef svo skyldi fara að einhver kæmist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.