131. löggjafarþing — 87. fundur,  10. mars 2005.

Almannatryggingar.

587. mál
[16:59]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er himinn og haf á milli skoðana þeirra sem aðhyllast félagshyggju og samhjálp og hinna sem aðhyllast hið óhefta markaðskerfi og að hver fái veitta heilbrigðisþjónustu eftir efnum og ástæðum.

Ég geri mér grein fyrir því. Ég er hins vegar ekki sammála hv. þingmanni í því að hann sé fulltrúi skattgreiðenda. Það erum við öll og við öflum skatta til þess m.a. að standa undir öflugu og góðu velferðarkerfi. Ég er alveg sammála því að við eigum ekki að innheimta skatta til þess að stunda hernaðarrekstur og stríð í öðrum löndum. Það er mjög hættulegt að innheimta skatta til þátta sem ekki koma þessu velferðarkerfi við. En þeir skattar sem við innheimtum til að standa að sameiginlegu velferðarkerfi, öflugu eins og hér er verið að tala um, tannvernd og tannheilsu sem allir eiga aðgang að óháð efnahag og stærð og breidd og hæð og lengd, er nokkuð sem gerir okkur að virtu samfélagi.

Þess vegna er mjög alvarlegt mál þegar einn helsti talsmaður stærsta stjórnmálaflokks landsins eða einn af þeim stærri, a.m.k. til skamms tíma, opinberar stefnu flokks síns með þeim hætti sem hér er gert. Þó að hann tali í nafni sjálfs sín er hann kosinn í framboð af flokksbundnum sjálfstæðismönnum og einnig kosinn á þing væntanlega af fólki sem styður Sjálfstæðisflokkinn vegna þeirra skoðana sem hv. þingmaður er talsmaður fyrir sem eru þær að tala niður til velferðarkerfisins (Forseti hringir.) og að það eigi að vera aðeins aðgengilegt fólki eftir efnum.