131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:15]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þetta tækifæri til að ræða mikilvæg málefni Ríkisútvarpsins þótt við munum vonandi fá aftur tækifæri til þess síðar í vikunni. Það er rétt að geta þess að báðir stjórnarflokkarnir samþykktu áðan frumvarp til breytinga á lögum um Ríkisútvarpið og geri ég mér því vonir um að við getum rætt það síðar í vikunni á hinu háa Alþingi.

En þar sem frumvarpið hefur ekki enn verið lagt fram formlega tel ég eðlilegt að geyma efnislega umræðu um það til 1. umr. um frumvarpið sjálft, enda ekki skynsamlegt að byggja umræðu um mál sem þessi með tilvísunum í vangaveltur í fjölmiðlum sem ekki gefa alfarið rétta mynd af efnisatriðum frumvarpsins. Harma ég slíka umfjöllun enda ekki málinu til framdráttar að umræða um það byggist á öðru en því sjálfu í þeirri endanlegu mynd sem það verður lagt síðan fram í á Alþingi.

Hins vegar er mikilvægt að ræða málefni Ríkisútvarpsins á opinskáan og hreinskilinn hátt. Meginástæða þess að ég setti af stað endurskoðun á lögum um Ríkisútvarpið skömmu eftir að ég tók við embætti menntamálaráðherra er einmitt sú að verulegra breytinga er þörf. Það lagaumhverfi sem Ríkisútvarpið býr við í dag hamlar starfsemi Ríkisútvarpsins að mörgu leyti og dregur úr möguleikum þess til að takast á við þær miklu kröfur sem þjóðin gerir til þessarar mikilvægu stofnunar.

Almenn sátt ríkir um það í þjóðfélaginu að hér skuli starfrækt öflugt og vandað ríkisútvarp. Fyrir því er rík hefð, rétt eins og í nær öllum öðrum Evrópuríkjum, og RÚV hefur fyrir löngu markað sér sess sem ein af helstu menningarstofnunum landsins. Ríkisútvarp verður hins vegar að taka breytingum með breyttum tímum, breyttum kröfum og breyttum aðstæðum. Það form sem upphaflega var valið kann að henta illa í dag. Að sama skapi verður stöðugt að ræða hlutverk Ríkisútvarpsins og þær kröfur sem við gerum til þess.

Ég hef alla tíð nálgast hlutverk Ríkisútvarpsins út frá þeirri forsendu að það eigi að vera miðill sem stendur öðru fremur vörð um íslenska menningu, jafnt tungu okkar og menningararf sem grósku og nýsköpun í menningunni og samfélaginu. RÚV á að vera miðill sem leggur ríka áherslu á innlenda dagskrárgerð, innlenda sköpun og íslenskt samfélag.

Þegar ráðist er í breytingar á Ríkisútvarpinu, sér í lagi á þessum sviðum sem leggja ber áherslu á, á að gera það með því hugarfari að það efli Ríkisútvarpið og geri því betur kleift að sinna skyldum sínum í íslensku samfélagi. Þannig hef ég nálgast málið frá upphafi og um þessi meginsjónarmið hefur ríkt breið samstaða meðal stjórnarflokkanna og að ég tel einnig á milli allra flokka hér á Alþingi.

Undanfarna daga hafa staðið harðar deilur í samfélaginu vegna ráðningar nýs fréttastjóra á fréttastofu útvarps. Að sjálfsögðu geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvernig best sé að manna einstakar stöður innan Ríkisútvarpsins. Hins vegar liggur jafnframt fyrir að sá einstaklingur sem varð fyrir valinu var talinn hæfur af framkvæmdastjóra fréttasviðs, hann var eini einstaklingurinn sem fékk atkvæði í útvarpsráði og hann var ráðinn af útvarpsstjóra sem er sá aðili sem hvað best þekkir stofnunina og þær þarfir sem hún hefur hverju sinni.

Farið var í einu og öllu eftir þeim leikreglum, eftir þeim lögum og hefðum sem gilda um ráðningar við Ríkisútvarpið. Vissulega má deila um hvort pólitískir aðilar í útvarpsráði eigi að hafa skoðanir á því hverjir séu ráðnir til starfa í einstakar stöður. Það er vissulega umdeilanlegt en hins vegar er það samkvæmt núgildandi lögum lögboðið hlutverk fulltrúa í útvarpsráði að nálgast mál með þessum hætti og samkvæmt því hljóta menn að starfa meðan núverandi lög eru í gildi.

Ég vek einnig athygli á því að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í útvarpsráði véku sér í þetta sinn undan því að taka afstöðu til þess með hverjum skyldi mæla í stöðu fréttastjóra og fullnægðu þar af leiðandi ekki sinni lögboðnu skyldu. Það er vandséð hvaða úrræði útvarpsstjóri hafði önnur þegar einungis einn umsækjenda af 10 fær stuðning frá útvarpsráði.

Það er svo annað mál að núverandi fyrirkomulag við mannaráðningar hefur að mínu mati gengið sér til húðar. Það er von mín að á næstunni munum við í sameiningu takast á við það verkefni að endurnýja lög um Ríkisútvarpið því sjálfu til heilla. Þar ber að leggja áherslu á að þótt Ríkisútvarpið heiti svo samkvæmt gamalli hefð er það útvarp sem er rekið í almannaþágu, það sem kallað er á ensku „public service broadcasting“. Við eigum að miða að því að tryggja Ríkisútvarpinu eðlilegan starfsramma og öruggar tekjur. Þá skiptir jafnframt miklu að menn láti ekki útúrsnúninga og skammtímahagsmuni ráða ferð, heldur ræði málefni Ríkisútvarpsins af heilindum og að sjálfsögðu með hagsmuni þess að leiðarljósi.