131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Málefni Ríkisútvarpsins.

[15:38]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra vék sér undan því að svara þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram. Þetta er allt kerfinu að kenna, segir hæstv. ráðherra, kerfið hefur gengið sér til húðar og því þarf að breyta.

Hér hefur verið sýnt fram á að vandi Ríkisútvarpsins er tvíþættur. Hann er fjárhagslegs eðlis og hann lýtur að stjórnsýslu, misbeitingu á valdi. Hvort tveggja er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hæstv. menntamálaráðherra og hvoru tveggja er hægt að breyta.

Síðan er komið að Framsóknarflokknum og meintu lögmæti spillingar framsóknarmanna. Það var makalaust að hlusta á yfirlýsingarnar sem komu frá hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég trúi því vel að sá einstaklingur sem í hlut á og var ráðinn sem fréttastjóri sé ekki flokksbundinn framsóknarmaður og sé hinn besti einstaklingur. Um það er ekki verið að ræða.

Það er heldur ekki um það að ræða að menn telji að ákvörðun hafi verið tekin á þingflokksfundi Framsóknarflokksins um þessi mál. Það sem um er að ræða er Framsóknarflokkurinn í undirdjúpum, áróðursmeistarar hæstv. forsætisráðherra Halldórs Ásgrímssonar, spunamennirnir svokölluðu því að það vita allir sem vilja vita að nú hvín í spunarokkunum.

Hæstv. menntamálaráðherra segir: Menn geta haft sína skoðun á þessari ráðningu. Er það svo í alvöru? Meinar hæstv. ráðherra þetta? Það er auglýst eftir fréttastjóra. 10 manns sækja. Það eru ráðnir ráðgjafar forstöðumanni fréttasviðs til aðstoðar. Þeir komast að niðurstöðu. Það er rætt við alla einstaklingana og menn komast að þeirri niðurstöðu að fimm einstaklingar standi öðrum framar. Enginn þeirra er valinn, heldur sá (Forseti hringir.) sem hefur minnsta reynslu. Finnst ráðherra þetta í einlægni (Forseti hringir.) vera heilbrigt?