131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

137. mál
[16:24]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að því marki sem íslenskt þjóðfélag er upplýst og opið þá mundi þetta frumvarp, ef að lögum yrði, heldur loka því. Það væri verið að loka einum glugganum, mikilvægum glugga í upplýsingasamfélagi og draga fyrir öll tjöld. Sannast sagna hef ég alltaf furðað mig á því hvers vegna sjálfstæðismenn og einkum Samband ungra sjálfstæðismanna hefur lagt slíkt ofurkapp á þessa stefnu að hlífa sérstaklega stóreignafólki og hátekjufólki við því að upplýst verði um kjör þess.

Staðreyndin er sú að þegar skattskýrslur eru birtar skapast umræða um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu. Ég tel að það sé mjög gott og fjarri því að þetta sé ógeðfellt á einhvern hátt eða óviðeigandi að fjalla um tekjur manna. Það er fullkomlega viðeigandi.

En gagnvart hverjum miðar síðan aðhaldið? Í rauninni ekki gagnvart þeim sem eru með miklar tekjur og telja þær fram heldur hinum sem hafa háar tekjur sem allir vita um en telja ekki fram nema örlítinn hluta. Það er talað stundum um vinnukonuútsvar í því efni. Þetta er aðhald á skattsvikarana, á stóru skattsvikarana í samfélaginu.

Ég spyr hv. þingmann hvers vegna það sé slíkt kappsmál ungum sjálfstæðismönnum og sjálfstæðismönnum almennt — eða er þetta almennt viðhorf þar? — að stuðla að launaleynd og skattaleynd svo að hátekjumenn geti pukrast með sínar eignir?