131. löggjafarþing — 88. fundur,  14. mars 2005.

Atvinnuleysistryggingar.

174. mál
[18:10]

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þetta frumvarp og þann rökstuðning sem fram hefur verið færður af hv. flutningsmanni og þann hug sem þar liggur að baki. Enn fremur var farið með mjög fróðlegar tölur sem við höfum heyrt og maður blygðast sín í hvert skipti sem maður heyrir þær eða sér á blaði. Staðreyndin er sú að atvinnuleysisbætur eru og hafa verið um nokkra hríð undir lágmarkslaunum samkvæmt kjarasamningum og undir fátæktarmörkum. Það er af sem áður var þegar það var kappsmál verkalýðshreyfingarinnar að tengja atvinnuleysisbæturnar lágmarkslaunum, þær skyldu aldrei fara neðar. Það get ég gagnrýnt og sú gagnrýni beinist víðar en að ríkisstjórninni. Það er miður að mínu mati að við gerð síðustu kjarasamninga í viðræðum Alþýðusambandsins við ríkisstjórnina skyldi þetta ekki vera tryggt.

Sá munur sem er á atvinnuleysisbótum og lágmarkslaunum verður auðvitað verulegri fyrir þær sakir að atvinnulausir njóta ekki kjarsamningsbundinna uppbóta sem þar tengjast og þetta mál lýtur að því að koma desemberuppbót inn í atvinnuleysisbæturnar. Hv. flutningsmaður nefndi einnig orlofsuppbótina og ég verð að segja að tillagan er hógvær. Ég hefði kosið að sjá orlofsuppbótina tekna þar inn og beini því til hv. flutningsmanns að láta skoða það við meðferð málsins í nefnd.

Frumvarpið er til þess fallið að færa atvinnuleysisbætur nær lágmarkslaunum og það styður Vinstri hreyfingin – grænt framboð eindregið. Ég get ekki annað en sagt að það væri að mínu mati mun verðugra verkefni fyrir unga sjálfstæðismenn en skattskrártillagan sem við ræddum í dag og ég verð alltaf jafnundrandi þegar ég sit á þingi hvernig sá flokkur raðar verkefnum sínum, hver forgangsröðun þeirra er, vitandi af ástandi atvinnulausra í landinu.

Það er gjörsamlega óþolandi að atvinnuleysisbætur séu undir fátæktarmörkum. Það vita svo sem allir að fólk lifir ekki af tekjum sem eru undir 110–120 þús. kr. á mánuði. Og það er jafnóþolandi, gjörsamlega óþolandi, og fyrir það blygðast maður sín líka, að skattleysismörkin skuli vera langt undir lágmarkstekjum til framfærslu eða tæpar 80 þús. kr. Allt þetta tók hv. flutningsmaður fram og rökstuddi svo ágætlega að frekari orð eru óþörf og ég styð frumvarpið heils hugar.