131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:33]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég get svarað því á þann veg að eins og fram hefur komið í fréttum hefur verið skrifað undir þennan samning af hálfu Ríkiskaupa með aðild Landhelgisgæslunnar. Landhelgisgæslan hefur komið að þessu sem verkkaupandi og Ríkiskaup hafa síðan séð um þessi útboð og viðræður við þá sem gerðu tilboð. Landhelgisgæslan setti skilyrði varðandi ISO-gæðastaðal þegar verkið fór af stað og taldi að með því væri verið að gera eðlilegar varúðarráðstafanir í alþjóðlegum útboðum af þessu tagi. Síðan varð niðurstaðan sú að þessi krafa yrði ekki til að útiloka neinn, heldur væri tekið til hennar í sérstöku valmódeli sem var lagt fyrir sérfræðinga og féllust þeir á það.

Ég tel að öllum réttum aðferðum hafi verið beitt í þessu máli og þegar niðurstaða fékkst lá ljóst fyrir að vitaskuld yrði skrifað undir samninga af hálfu Landhelgisgæslunnar. Hún á mikið undir að ráðist verði í endurnýjun á þessum varðskipum. Það hefur lengi staðið til og Landhelgisgæslan hefur litið þannig á að hún gæti treyst á það í samskiptum sínum við Ríkiskaup og aðra sem að þessu máli hafa komið að allt stæðist sem þar væri gert. Ef svo er ekki hafa menn náttúrlega tækifæri til að andmæla því og finna að því. Landhelgisgæslunni sem verkkaupanda er að sjálfsögðu kappsmál að fá þetta verk unnið.