131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Utandagskrárumræða um viðgerð á varðskipum.

[13:50]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef fullan skilning á því að þeir þrír hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar sem að málinu koma fælist umræðuna og vilji hvergi koma nærri henni. Hæstv. fjármálaráðherra, sem ber ábyrgð á Ríkiskaupum, hæstv. dómsmálaráðherra, sem er „bara verkkaupi“ eins og hann sagði áðan í ræðustóli og hæstv. iðnaðarráðherra sem er á móti málinu en samt með því. Ég hef allan skilning á því að þeir séu ekki áfjáðir í að taka utandagskrárumræðu vegna þess klúðurs sem uppi er þegar sérfræðingar hafa lýst því yfir að þó að sjálfsögðu hefði átt að fara að lögum og EES-reglum um að bjóða þetta út á svæðinu hefði mátt reikna það þannig að unnt hefði verið að taka tilboði Íslendinga og það orðið hið lægsta þegar allt var með talið. Ég hef því algeran skilning á fælni ráðherrana.

Vegna þeirrar umræðu sem hér hefur átt sér stað, herra forseti, um hver þeirra þori, geti og vilji standa í þessum ræðustól og taka til varna í málinu legg ég til að þeir verði allir viðstaddir utandagskrárumræðu um málið sem yrði í lengra lagi, að þeir standi allir þrír í ræðustól og lýsi viðhorfum sínum á efnisatriðum til málsins. Ef hæstv. ráðherrar deila um hverjir eigi að vera fremstir í þeirri röð gæti starfsaldur til að mynda ráðið, en hér skulu þeir allir vera. Við skulum því ekki, ágætu þingmenn, gleyma okkur í deilu um það hver var fyrstur að hringja í hæstv. forseta, heldur hitt að ráðherrar standi fyrir máli sínu hér. Það er kjarni málsins.