131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:24]

Guðmundur Árni Stefánsson (Sf):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið full ástæða til þess að taka þessa umræðu upp og inna hæstv. forsætisráðherra eftir því hvort eitthvað hafi gerst á flokksþingi Framsóknarflokksins á dögunum. Mér er skapi næst að halda að það svar hafi ekki enn þá komið. Það liggur að vísu fyrir hér skrifaður texti um hugsanlegt þetta og hugsanlegt hitt. Það liggur jafnframt fyrir að varaformaður flokksins, sem er núna flúinn úr salnum, sló þetta allt saman kalt strax að kvöldi síðasta dags flokksþingsins. Það liggur líka fyrir að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem var hér líka áðan, tók upp þykkjuna fyrir formann sinn og skammaðist út í Davíð Oddsson utanríkisráðherra, formann hins stjórnarflokksins, þegar hann vefengdi að um tímamót væri að ræða í sögu þessarar umræðu. Þar er þögnin hrópandi.

Eftir stendur því spurningin: Fæddist lítil mús eða gerðist eitthvað sem tímamót mætti telja hvað varðar afstöðu Framsóknarflokksins til Evrópumála?

Það er alveg kýrskýrt að stefna Samfylkingarinnar liggur fyrir og um hana þarf enginn að velkjast í vafa. Við höfum spurt flokksmenn okkar svo þúsundum skiptir í beinni kosningu hvaða leið þeir vilja fara og þeir hafa sagt það að stórum meiri hluta að þeir vilji sækja um aðild en hafa hins vegar klár markmið í farteskinu. Ef viðunandi samningar nást ekki þá er það svo, ef þeir nást mun þjóðin taka endanlegu afstöðu. Þetta eru bara klár og kvitt skipti.

Ég kalla eftir því: Er nokkur von til þess að svör á borð við þessi fáist hjá Framsóknarflokknum? Að ég tali nú ekki um Sjálfstæðisflokkinn, sem er vanur því að lúta forsjá okkar jafnaðarmanna í utanríkismálum þegar til stykkisins kemur, samanber EES-samninginn.