131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Evrópumál og störf Evrópustefnunefndar.

[14:28]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Það er full þörf á því að ræða Evrópumálin fordómalaust. Frjálslyndi flokkurinn hefur allan vara á sér við aðild að Evrópusambandinu. Margir, sumir a.m.k., virðast standa í þeirri trú að hér verði sæluríki við það eitt að ganga í Evrópusambandið og jafnvel jól alla daga, og ef minnst er á ýmis vandkvæði, svo sem sameiginlega fiskveiðistjórn, þá er viðkvæðið: Það er hægt að fá undanþágu frá þessu eða hinu. Staðreyndin er sú að í viðræðum við embættismenn Evrópusambandsins hefur ítrekað komið í ljós að það verður erfitt að fá undanþágu og jafnvel ómögulegt. Það er staðreyndin sem blasir við.

Ýmsir ungir framsóknarmenn, sem hæstv. forsætisráðherra hefur vitnað til, segja einfaldlega að þetta skipti engu máli. Fiskimiðin séu hvort eð er komin á hendur örfárra fyrirtækja — um þetta má lesa á heimasíðu Framsóknarflokksins — og hvers vegna ekki að gera þau bara að söluvöru fyrir Evrópuþjóðirnar? Þetta er viðhorf ungra framsóknarmanna.

Við í Frjálslynda flokknum teljum að hægt sé að fara aðra leið en að fá undanþágur. Það er einfaldlega að breyta fiskveiðistjórninni þannig að eignarrétturinn á auðlindinni verði færður, þetta verði nýtingarréttur sem tengdur verði sjávarbyggðunum. Stjórn á fiskimiðunum muni þá skipta æ minna máli og þá verði mögulega hægt að skoða aðildarviðræður af einhverri alvöru.