131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:15]

Gunnar Örlygsson (Fl):

Virðulegur forseti. Undanfarið hefur mér verið hugleikið hvernig hægt væri að lækka fjármagnskostnað heimilanna í landinu og ná því sjálfsagða markmiði að vextir íbúðalána á Íslandi verði sambærilegir við það sem best gerist í nágrannalöndunum.

Við Íslendingar viljum oft aðeins það besta og teljum okkur framarlega í veröldinni þegar kemur að lífsgæðum og auðæfum okkar ríku þjóðar. Það hlýtur því að teljast eðlilegur metnaður fyrir íslenska stjórnmálamenn að berjast fyrir góðum lánakjörum fyrir umbjóðendur sína, fólkið í landinu, a.m.k. lánakjörum á við það sem best gerist í nágrannalöndum okkar. Margir hafa talið að eina færa leiðin til að lækka fjármagnskostnað heimilanna sé að innleiða erlenda samkeppni en hvort eða hvenær sú erlenda samkeppni kemur er aftur á móti óskrifað blað.

Nýlega var samþykkt frumvarp um breytingar á lögum um Íbúðalánasjóð þar sem lán sjóðsins voru m.a. hækkuð í 90% af brunabótamati íbúða. Vegna þessa og nokkurra annarra atriða sem varða fjármál heimilanna á Íslandi langar mig, virðulegur forseti, að koma með eftirfarandi innlegg í umræðuna.

Í fyrsta lagi vil ég nefna samanburð á lánakjörum BN-bank í Noregi við lánakjör á Íslandi. Nýlega festi Íslandsbanki kaup á BN-bank í Noregi. BN-bank er þekktastur fyrir þjónustu sína og fjármögnun á íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Því er athyglisvert að bera saman þau kjör sem BN-bank, í eigu Íslendinga, býður Norðmönnum í Noregi í samanburði við þau kjör sem bjóðast Íslendingum á Íslandi. Á vefsíðu BN-bank sem er, með leyfi forseta, bnbank.no má sjá hvaða kjör þeir bjóða viðskiptavinum sínum. BN-bank býður 2,95% breytilega vexti af 20 ára láni og 3,21% breytilega vexti af 25 ára láni. Á þessum lánum er engin verðtrygging, eins og það kallast, og meira til. Þar er ekkert uppgreiðslugjald, ekkert lántökugjald, ekkert stimpilgjald og engar kvaðir um frekari viðskipti við bankann.

Nú er rétt að staldra aðeins við og skoða hvað þetta raunverulega þýðir. Norsku kjörin kalla á 26 milljarða kr. vexti á ári af 850 milljörðum kr., sem fyrir skömmu voru skuldir íslenskra heimila. Íslensku kjörin kalla hins vegar á 79 milljarða kr. vexti og verðtryggingu, ef hún er reiknuð 4% eins og hún hefur að jafnaði verið undanfarin ár. Þarna munar 53 milljörðum kr. á ári, sem er eingöngu umframvaxtabyrði eða fjármagnsbyrði íslenskra heimila miðað við kjörin sem norskar fjölskyldur búa við. Í raun má óhikað segja, virðulegur forseti, að hver fjölskylda í landinu þurfi að afla aukalega 100 þús. kr. tekjum á mánuði til þess eins að standa straum af umframfjármagnsbyrðina, miðað við kjörin sem norskur banki í eigu Íslendinga býður frændum okkar í Noregi.

Ef svo fer sem spáð er, að gengisfall verði hér 5–15% á næstu missirum, en greiningardeildir allra banka hafa spáð svo þótt skilji á milli hvenær það nákvæmlega verði, má ætla að þegar það verður staðreynd bíði það lántakenda að verðtrygging lána muni hækka um helminginn af þeirri upphæð. Ef gengisfall verður 15% mun verðtrygging lána hækka um 7,5% og það bara vegna gengisfellingar.

Það er brýnt að almenningur taki því ekki sem heilögum sannleik þegar spádómum og fullyrðingum frá bönkunum er varpað fram. Til að mynda sagði Björn Ingi Rúnarsson, hagfræðingur greiningardeildar Landsbankans, í Fréttablaðinu þann 3. september 2004 að til þess að óverðtryggð lán yrðu tekin upp í einhverjum mæli þyrftu menn að trúa á að stöðugleiki ríkti hér um langa hríð.

Virðulegur forseti. Gömul og úrelt rök eins og að íslenska krónan sé of lítill gjaldmiðill, að íslenskir bankar séu of smáir og að íslensku bankarnir fái ekki nógu góð lánakjör erlendis eru ekkert annað en firra. Það á ekki við nokkur rök að styðjast í dag. Fyrir það fyrsta er íslenskur banki orðinn einn sá stærsti á Norðurlöndunum. Í annan stað hafa íslenskir bankar afar gott lánstraust og í raun forskot á fjölmarga smábanka víða í hinum vestræna heimi, sem bjóða engu að síður lægri vexti og að sama skapi lán án verðtryggingar og virðast komast bærilega af. Það er engin tilviljun, virðulegur forseti, að bankarnir græddu 40 milljarða kr. árið 2004.

Ég minni á að hæstv. ráðherrar Halldór Ásgrímsson og Davíð Oddsson hafa tönnlast á orðinu „stöðugleiki“ í rúman áratug þegar talið hefur borist að efnahagsmálum. Ísland hefur það forskot, í skjóli mikilla náttúruauðlinda, öflugs menntakerfis, fjölbreytilegri viðskipta en áður og mikils mannauðs, að geta tryggt stöðugleika í efnahagsmálum um ókomna tíð.

Björn Ingi Rúnarsson frá Landsbankanum sagði í sömu grein, með leyfi forseta, að verðtrygging væri að „verða vinsælli erlendis“. Ég átta mig ekki á hvað maðurinn er þar að tala um. Hvergi, svo ég viti til, er verið að taka upp verðtryggingu.

Þann 10. desember síðastliðinn birtust ummæli Sigurðar Einarssonar, stjórnarformanns KB-banka, í lesendabréfi Morgunblaðsins. Sigurður lýsti þeirri skoðun sinni, með leyfi forseta, að veikja þyrfti krónuna sem fyrst. Hann sagði að gengi krónunnar mundi lækka og það fyrr en talið hefði verið. Sigurður sagði að fólk ætti að varast að taka gengisbundin lán.

Þessi spádómur Sigurðar hefur enn ekki ræst og samkvæmt nýjustu fréttum er ekkert útlit fyrir annað en svartnætti í verðbólguspám Seðlabankans og Hagstofunnar. Fyrir hverja, virðulegur forseti, halda menn almennt að forstjórar bankanna tali þegar þeir koma fram opinberlega? Að sjálfsögðu tala þeir fyrir sig sjálfa og hina stóru vini sína, fyrst og fremst fyrir hluthafa í viðkomandi bönkum. Það er brýnt að íslenskur almenningur geri sér grein fyrir þeim kjörum sem bjóðast í nágrannalöndunum og taki afstöðu með því stjórnmálaafli sem er tilbúið að breyta þessum málum almenningi til hagsbóta um ókomna tíð.

Hæstv. forsætisráðherra tók undir með Sigurði Einarssyni í KB-banka í Morgunblaðinu þann 11. desember í fyrra. Hann taldi óráð fyrir heimilin að taka gengisbundin lán. Halldór sagði að tekjur heimilanna væru í krónum og ekkert væri því eðlilegra fyrir heimilin en að taka lán í íslenskum krónum. Hann sagði stöðugleika fram undan og taldi Seðlabankann hafa haft heilmikil áhrif á málin með hækkun stýrivaxta. Virðulegur forseti. Ekkert hefur breyst síðan nema kannski til hins verra.

Endurskoðandinn Halldór Ásgrímsson, hæstv. forsætisráðherra, las stöðuna ekki rétt og mun þurfa að gjalda þess á næstu missirum sem æðsti maður ríkisstjórnarinnar. Ef fram fer sem horfir munu fjöldauppsagnir og gjaldþrot framleiðslu- og útflutningsfyrirtækja aukast á þessu ári. Þó keyrði nú um þverbak á síðasta ári eins og flestir ættu að muna.

Í Fréttablaðinu þann 15. nóvember 2004 kemur fram að uppgreiðslugjald hjá Landsbankanum sé tæp 8% af 40 ára láni. Reyndar lækkar gjaldið um 0,2% á ári eftir því sem nær dregur samningslokum. NB-bank í Noregi býður lán með engu uppgreiðslugjaldi. Sami neytandi sem tekur lán, hvort sem um er að ræða hjá bönkum eða Íbúðalánasjóði, stendur einnig frammi fyrir því hróplega óréttlæti að greiða fyrir stimpilgjald, sem að mínu mati eru ótrúlegir fjötrar fyrir almenning sem eiga ekkert erindi við nútímann þar sem rafrænar skráningar hafa leyst af hólmi eldra snið sem varla nema elstu menn muna.

Ég held áfram máli mínu í seinni ræðu minni á eftir, virðulegur forseti.