131. löggjafarþing — 89. fundur,  15. mars 2005.

Afnám verðtryggingar á fjárskuldbindingum.

182. mál
[16:29]

Gunnar Örlygsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst yfir ummælum hv. þm. Péturs Blöndals, sem kemur frá Sjálfstæðisflokki, að honum þyki nú vert að skoða kosti þess og galla hvort afnema eigi verðtryggingu á Íslandi eða ekki. Hitt er annað, það stendur klárlega í þessari tillögu að það á einmitt að skoða kosti þess og galla hvort afnema eigi verðtrygginguna. Ef hv. þingmaður skoðar málið frekar kemur í ljós að hér er um nefndarskipan að ræða, tillögu til nefndarskipanar sem á að skoða þessi mál til hlítar.

Spurningin sem ég vil leggja fyrir hv. þm. Pétur Blöndal er þessi:

Ég kom inn á það í ræðu minni áðan að af 850 milljörðum er vaxtabyrði norskra fjölskyldna miðað við kjör sem BN-banki í Noregi býður, sem er í eigu Íslendinga, Íslandsbanka, um 26 milljarða kr. Vextirnir eru breytilegir, án verðtryggingar, stimpilgjalda o.s.frv. Þeir eru frá 2,85% upp í 3,21% eftir lánstíma. Ef við heimfærum aftur á móti þessa sömu tölu, virðulegi forseti, 850 milljarða miðað við þau kjör sem bjóðast Íslendingum í dag bæði hjá fjármálastofnunum á markaði sem og Íbúðalánasjóði ásamt þeirri meðalprósentu sem hefur verið hér á verðtryggingu undanfarin ár, sem eru 4%, þá kemur í ljós að fjármagnsbyrði íslenskra heimila af sömu tölu eru 79 milljarðar. Þarna munar 53 milljörðum ísl. kr. Þetta eru tölur sem ég hef undir höndum, herra forseti, og set óhikað fram.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Pétur Blöndal:

Hver er helsta ástæðan fyrir þessari þungu fjármagnsbyrði íslenskra heimila umfram það sem þekkist til að mynda hjá frændum okkar í Noregi?