131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[11:50]

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel bara að þetta skapi þrjú stjórnsýslustig. Hv. þingmaður nefndi 12–14 sveitarfélög eftir 10 ár. Ég tel að það sé algjörlega óraunhæft.

Ef verkefni eru færð til sveitarfélaga, sem stefnt er að, til þessara fáu, 12–14, mundu þorpsstjórnirnar eða hreppsstjórnirnar sem hv. þingmaður bendir á, vilja fá eitthvert vald til sín. Annars væri valdið svo langt frá fólkinu og þá erum við komin með þrjú stjórnsýslustig sem ég tel mjög óæskilegt í okkar landi. Ég sé ekki slíka framtíð fyrir mér.

Ég vil nota tækifærið hérna og þakka hv. þm. Einari Má Sigurðarsyni fyrir að hafa lýst því yfir að stjórnarandstaðan, a.m.k. Samfylkingin, sem talsmaður hennar, sjái ekki ástæðu til að tefja þetta mál hér í vinnslu þingsins, það sé bara sjálfsagt að flýta því í gegn. Ég vænti þess þá að við getum sameinast um það og gert þetta að lögum, helst fyrir páska eða strax eftir þá.