131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[12:33]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hin rétta niðurstaða er tillaga sameiningarnefndar. Ég er að vísa í lagatextann. Ég er að vísa í sveitarstjórnarlögin, ákvæði sem fest voru í lög í fyrravor þess efnis að sameiningarnefndin hefur lögum samkvæmt mjög víðtækt umboð til að skipa málum. Hún leitar hugmynda hjá sveitarstjórnarmönnum, það er hinn lýðræðislegi þáttur málsins, gott og vel, en hún hefur það vald lögum samkvæmt að ákveða hvert ferlið er. Ef sú niðurstaða fæst ekki í kosningum sem hún vill ná fram hefur hún lögbundið vald til að efna til kosninga að nýju. Það er þetta sem ég er að vísa í.

Varðandi valdstjórnina er ég líka að vísa til hins nánast ósagða opinberlega en þess sem látið er liggja að, andans sem svífur yfir vötnum, að þeir sem ekki makka rétt verði látnir gjalda þess í framkvæmdum á svæðinu.

Ég vil gjarnan taka það fram að ég er persónulega almennt fylgjandi því að stækka og efla einingar á sveitarstjórnarstiginu. Mér finnst hins vegar ekkert einhlítt í því efni. Mér finnst ekkert einhlítt í því að Grundarfjörður, svo dæmi sé tekið, sé sameinaður Ólafsvík. Mér finnst það ekki liggja í augum uppi. Þegar ég heyri íbúa, t.d. þaðan, færa rök fyrir því að heppilegra fyrirkomulag væri samvinna og samstarf á vissum sviðum um tiltekin verkefni þá finnst mér þetta vera málefnaleg og sannfærandi aðkoma að málinu. Við eigum ekki að hugsa þessi mál með reglustiku um of, eða í svart/hvítu og annaðhvort eða. Það kunna að vera ýmsar millilausnir til og varasamt er að reyna að keyra málin í gegn með valdi.