131. löggjafarþing — 92. fundur,  17. mars 2005.

Staða íslensks skipasmíðaiðnaðar.

[13:58]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það fór eins og mig grunaði að þegar við áttum að ræða um skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi í stóru samhengi þá fóru menn að rífast um varðskip Landhelgisgæslunnar, skipasmíðastöð í Póllandi, og síðan að skamma hver annan eftir gömlum og áður þekktum nótum.

Það er að sjálfsögðu sorgarsaga hvernig íslenskum skipasmíðaiðnaði hefur hnignað á mörgum undanförnum árum. Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór yfir þetta áðan. Á árunum 1977–1987 hefur ársverkum fækkað um á að giska þúsund hafi ég tekið rétt eftir. Núna vinna aðeins um 500 manns við þennan iðnað og sennilega er sú tala ofmat.

Ég hygg að vandi íslenskra skipasmíðastöðva sé ekki fólginn í því að þær séu ekki samkeppnishæfar við erlendan iðnað. Ég tel að þær séu fyllilega samkeppnishæfar, kannski á vissan hátt samkeppnishæfari en skipasmíðastöðvar í Evrópu því að skipasmíðastöðvar á Íslandi njóta jú eins, sem er mikill kostur að ég tel vera, þ.e. nálægðarinnar við viðskiptamennina sem eru að sjálfsögðu útgerðir á Íslandi.

Hins vegar megum við ekki gleyma því að íslenski fiskiskipaflotinn hefur breyst gríðarlega á mjög mörgum undanförnum árum. Kunnugir þurfa ekki annað en að skoða Sjómannaalmanakið til sjá hvernig íslenski skipaflotinn lítur út í dag og hugsa síðan til baka, 10–25 ár og rifja upp hvernig flotinn leit út þá. Á þessu árabili hefur fækkað gríðarlega í hinum svokallaða vertíðarflota. Þar hefur skipum fækkað mjög. Þetta eru þau skip sem voru algengustu viðskiptavinir í íslenskum skipasmíðastöðvum á árum áður. Þessi skip eru nánast horfin. Það hefur leitt af sér mikinn samdrátt og komið okkur inn í ákveðinn vítahring. Verk hafa dregist saman, tækifærunum hefur fækkað og ég hygg að verkkunnátta hér í landi sé núna í stórhættu þegar (Forseti hringir.) skipasmíðaiðnaður er annars vegar og það er grafalvarlegt mál. En hér hafa stjórnvöld ekki (Forseti hringir.) staðið sína plikt.