131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:57]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fagna eindregnum stuðningi Framsóknarflokksins við gjaldfrjálsan leikskóla. Það er ástæða til þess eftir ólundarræðu hæstv. fjármálaráðherra hér fyrr í dag. En fyrst hæstv. félagsmálaráðherra telur að best væri að ríki og sveitarfélög ættu í viðræðum um það hvernig þessari þjónustu yrði komið á vil ég hvetja hæstv. félagsmálaráðherra til að fylgja þeirri sannfæringu sinni eftir gagnvart a.m.k. öðrum sveitarfélögum en Reykjavík. Þó að þetta hafi verið tryggt í Reykjavík búa þar ekki nema 40% barnanna í landinu.

Fyrst það er sannfæring hæstv. félagsmálaráðherra að mörg önnur sveitarfélög muni ekki geta boðið þessa þjónustu hvet ég hæstv. félagsmálaráðherra til að beita sér fyrir því af krafti sem ráðherra sveitarstjórnarmála að viðræður verði teknar upp milli ríkisins, eftir atvikum menntamálaráðuneytisins líka, við Samband íslenskra sveitarfélaga um það hvernig tryggja megi jafnræði um þessa þjónustu um land allt. Ég held að það sé ekki bara mikilvægt að innleiða þessa þjónustu (Forseti hringir.) í Reykjavík, heldur um land allt.