131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Happdrætti.

675. mál
[11:42]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um happdrætti. Það felur í sér heildarendurskoðun á reglum um leyfisveitingu til starfrækslu almennra happdrætta en núgildandi lög um það efni eru nr. 6/1926.

Markmið frumvarpsins að setja almenna lagaumgjörð um happdrætti. Fjallað verði um leyfisveitingarnar, hverjir geti sótt um leyfi, skilyrði fyrir þeim, undanþágur, leyfisgjöld og þær skyldur er hvíla á leyfishöfum. Núgildandi lög eru hljóð um þessi atriði og er það mjög til baga. Einnig hefur frumvarpið að geyma ákvæði sem hafa það að markmiði að vinna gegn spilafíkn. Vek ég í því sambandi athygli á 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins þar sem segir, með leyfi forseta:

„Happdrættisleyfi er heimilt að binda því skilyrði að útgjöld til auglýsinga verði ekki umfram ákveðið mark og einnig að leyfishafi leggi fé af mörkum til rannsókna og aðgerða sem miða að því að sporna gegn spilafíkn og afleiðingum hennar.“

Endurskoðun happdrættislaganna frá 1926 hefur lengi verið á döfinni enda má segja að fyrir löngu hefðu menn átt að búa þessari starfsemi nútímalegri lagaumgjörð. Í skýrslu nefndar um framtíðarskipan happdrættismála á Íslandi frá 1999 kom fram að brýnt væri að endurskoða og setja ný lög um happdrættismálefni. Það sem knýr á um þessa breytingu núna er þó ekki síst áralangur þrýstingur frá Eftirlitsstofnun EFTA. Stofnunin telur að aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið kalli á endurskoðun laganna frá 1926 en í 2. gr. þeirra gömlu laga þykir ekki gætt að þeim skyldum sem okkur ber að gæta samkvæmt þeirri aðild.

Í greininni segir, með leyfi forseta:

„Það er bannað mönnum á Íslandi að versla þar með eða selja hluti fyrir erlend happdrætti eða önnur þvílík happspil, eða að hafa þar á hendi nokkur störf, er að þessu lúta.“

Fyrir skömmu sat ég fund með starfsmönnum Eftirlitsstofnunar EFTA í Brussel um þessi mál. Um leið og komið er til móts við sjónarmið stofnunarinnar með því ákvæði í 3. gr. frumvarpsins sem lýtur að réttinum til að stofna hér til happdrættis er einnig áréttað í þessu frumvarpi að ágóði af slíkri starfsemi skuli renna til ákveðinna málefna hér á landi eða til alþjóðlegs starfs á borð við það sem unnið er í nafni Rauða krossins eða kirkjulegra hjálparstofnana.

Í 1. mgr. 3. gr. segir, með leyfi forseta:

„Leyfi til að reka happdrætti eða hlutaveltu, sbr. 1. mgr. 2. gr., má einungis veita félagi, samtökum eða stofnun sem hefur staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu, í þeim tilgangi að afla fjár til almannaheilla hér á landi, svo sem til þjóðfélags-, líknar-, menningar-, íþrótta- eða góðgerðarmála, svo og til alþjóðlegs mannúðarstarfs. Óheimilt er að veita leyfi til aðila er hyggjast reka happdrætti í öðru skyni.“

Ég tel að ákvæði í þessa veru um ráðstöfun á þeim fjármunum sem aflað er á þennan veg sé eðlilegt og nauðsynlegt til að ná þeim tilgangi sem felst í því að leyfisbinda þessa starfsemi. Hvarvetna í Evrópu leggja ríkisstjórnir kapp á að búa þannig um hnúta að með afskiptum frá Brussel sé fjárhagslegum stoðum ekki kippt undan starfi að þjóðþrifamálum sem unnið hefur verið fyrir happdrættisfé. Evrópusambandið hefur ekki mótað sér neina stefnu að þessu leyti og síðastliðið haust hvarf framkvæmdastjórnin frá tilraunum sínum til að steypa þetta í evrópskt mót vegna háværra mótmæla öflugra hagsmunasamtaka.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að dvelja við aðrar greinar frumvarpsins en vísa þess í stað til athugasemda við þær í frumvarpinu.

Ég vil nefna sérstaklega hér að við endurskoðun happdrættislaganna frá 1926 hefur ekki verið hróflað við sérlögum um peningahappdrætti og vöruhappdrætti, þ.e. um Happdrætti Háskóla Íslands, Happdrætti Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, Happdrætti Sambands íslenskra berkla- og brjóstholssjúklinga, um Íslenskar getraunir, Íslenska getspá og um Íslenska söfnunarkassa. Gert er ráð fyrir að áfram verði mælt fyrir um þessi happdrætti í sérstökum lögum samanber 2. mgr. 2. gr. þessa frumvarps, enda lúta þessi happdrætti um margt öðrum lögmálum en almenn happdrætti. Þó er gert ráð fyrir að ýmis ákvæði þessa frumvarps, ef það verður að lögum, gildi jafnframt um peningahappdrætti sem fá leyfi til starfrækslu samkvæmt sérstakri lagaheimild.

Í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu er verið að undirbúa breytingar á sérlögum um peningahappdrætti. Ég hef hug á að flytja hér næsta vetur tillögur um breytingar á þessum sérlögum þar sem einkaleyfi Happdrættis Háskóla Íslands til að reka peningahappdrætti verður afnumið og þar með einnig fellt niður einkaleyfisgjaldið á happdrættinu. Ég tel eðlilegt að ríkissjóði verði bætt tekjutap vegna þess með því að leggja gjald á þá sem fá leyfi til að starfrækja peningahappdrætti og annað sem fellur undir leyfilegt fjárhættuspil.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.