131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[14:32]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu þurfum við að ræða fjöldamargt í sambandi við ferðamál á Íslandi og þetta er kannski ekki það sem stendur hæst upp úr. En þetta er eitt af því og þetta er mál sem að mati forustumanna ferðaþjónustunnar hefur staðið upp úr. Þeir hafa skrifað mjög um þetta í íslensku dagblöðin og fjallað mjög um það á sínum fundum og þeir hafa fullyrt og haldið því fram að háir skattar á léttvín og bjór standi í veginum fyrir því að þessi vara sé á ásættanlegu verði fyrir ferðamenn. Áfengisverðið er hérna gríðarlega hátt á veitingastöðunum mörgum. Forustumenn ferðaþjónustunnar hafa haldið því mjög fram að þetta sé vandamál, þetta þvælist fyrir ferðaþjónustunni, þetta þvælist fyrir uppbyggingu hennar og þetta sé eitt af því í rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar sem verði að breyta og taka á.

Hæstv. samgönguráðherra er augljóslega á annarri skoðun. En hann getur ekki drepið málinu á dreif með því að honum finnist það ekki það sem ræða ber í þessu máli. Við ráðum að sjálfsögðu hvað við ræðum hér í þessari áætlun og þetta er eitt af því sem er komið inn á og er átt við með orðunum „Opinber gjöld af aðföngum“ ef vænta má með hliðsjón af þeirri umræðu sem farið hefur fram af þeim sem að ferðaþjónustunni standa. Þó svo að hæstv. ráðherra ferðamála hafi ekki tekið undir það samkvæmt því sem fram kemur hjá honum og svari hans hér þá er þetta eitt af þeim málum sem hafa staðið upp úr hjá þeim sem berjast fyrir bættu rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar enda þarf að lyfta grettistaki á mörgum sviðum til að rekstrarumhverfi hennar sé viðunandi eins og fram kom á dögunum þegar fjallað var um að arðsemi af þessari atvinnugrein er nánast engin. Auðvitað þarf að breyta mörgu, menntunarmálum, gæða- og öryggismálum og fjölda mörgum öðrum málum. En þetta er eitt af því sem þarf að koma fram í þessari umræðu.