131. löggjafarþing — 101. fundur,  1. apr. 2005.

Ferðamál.

678. mál
[16:05]

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir við þingsályktunartillöguna sem hér er til umræðu og góð orð um hana. Vegna ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar í lokin mætti halda að það væri mjög langt síðan hann hefði komið í Skagafjörð eða á það svæði, (Gripið fram í: Hann var þar í gærkvöldi.) hvað þá að hann fylgist með því sem er að gerast þar og hefur verið að gerast því að satt að segja eru önnur svæði ekki öflugri á sviði ferðaþjónustunnar en einmitt Skagafjarðarsvæðið og þau áform um bættar samgöngur í nágrenninu þar allt um kring eru auðvitað lykillinn að því að geta nýtt þá feiknalega merkilegu menningartengdu ferðaþjónustu sem þar hefur verið byggð upp í gegnum tíðina, á Hofsósi, á Hólum, Glaumbæ o.s.frv. Ég vil minna hv. þingmann á þetta alveg sérstaklega og bið hann um að það verði tekið upp í næstu ályktun sem hann stendur fyrir.

Að öðru leyti þakka ég honum og öðrum hv. þingmönnum fyrir ágætar undirtektir og afar málefnalega umræðu.

Ég vil nefna örfá atriði hér. Fyrst varðandi það sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir spurðist fyrir um sérstaklega sem eru bættar merkingar á vegakerfi landsmanna sem auðvelduðu erlendum ferðamönnum. Ég vísa til þess að Vegagerðin hefur verið að vinna að og undirbúa bættar merkingar á þjóðvegakerfinu. Fyrstu skrefin í því eru m.a. kynnt í nýlegu hefti fréttabréfs Vegagerðarinnar. Allt er það tengt því að auka umferðaröryggi og ég hef lagt ríka áherslu á að svo verði. Ég tel eðlilegt að sérstaklega sé litið til ábendinga hv. þingmanns og tel að það væri mjög gagnlegt að hv. samgöngunefnd færi yfir þá þætti í umfjöllun sinni um þingsályktunartillöguna.

Fleiri en einn þingmaður nefndu það sem mikilvægan lið í að efla ferðaþjónustuna og innflutning ferðamanna til landsins að fjölga þeim alþjóðaflugvöllum sem geta staðið fyrir þeirri þjónustu að taka á móti flugvélum í millilandaflugi. Það er mjög erfitt fyrir okkur þingmenn að ráða miklu þar um að öðru leyti en því að bæta þar aðstöðuna, að flugbrautir séu nægilega langar þannig að ekki sé horfið frá þess vegna. Ég tel eðlilegt að það verði skoðað og lagt mat á það hvort ekki sé eðlilegt að lengja flugbrautirnar bæði á Egilsstöðum og Akureyri í þeim tilgangi að tryggja þessa möguleika ef rekstraraðilar í fluginu sjá sóknarfæri þar að lútandi. Ég tek því undir þær ábendingar.

Hins vegar verðum við náttúrlega að minnast þess að það búa ekki margar milljónir á Íslandi og ýtrustu hagkvæmni þarf að beita í rekstri í millilandaflugi svo það sé eins sterkt og það þarf að vera til að tryggja góðar samgöngur. En ég tel að ef rekstrarlegar forsendur eru fyrir því að fljúga til annarra flugvalla en Keflavíkurflugvallar sé það auðvitað skoðunar virði þeirra sem sjá um slíkan rekstur.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti ágæta ræðu og málefnalega um tillöguna og vakti m.a. athygli á nauðsyn þess að móta stefnu um hvernig tryggja megi að stóraukinn fjölda ferðamanna skerði ekki og skaði náttúruna. Ég tek undir að huga þarf að því og er verið að gera það. Verið er að bæta stöðuna á fjölförnum ferðamannastöðum og árlega höfum við lagt háar fjárhæðir í að koma upp göngustígum og móttökuaðstöðu á fjölförnum ferðamannastöðum til þess einmitt að tryggja þetta. Ég tel því að sú áætlun sem hv. þingmaður nefndi sé í gangi. Alþingi samþykkir árlega framlög til uppbyggingar á fjölförnum ferðamannastöðum sem er afar nauðsynlegt og við þurfum að huga að því áfram.

Hv. þingmaður nefndi einnig áherslur í markaðssetningu og áherslur á tiltekin svæði. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni er áfram gert ráð fyrir að leggja megináherslu á markaðssvæðin Norður-Ameríku, Norðurlöndin, Mið-Evrópu og Bretland en ég tel jafnframt að við þurfum að horfa víðar um. Við höfum verið að festa rætur á markaðssvæðum eins og Japan og þurfum að huga að Kína og fleiri löndum þar sem er mikill vöxtur í atvinnulífinu og miklir möguleikar á markaðssetningu í ferðaþjónustunni. Ég tel að þrátt fyrir að sérstaklega sé litið til þeirra markaða sem ég nefndi áður hefur stefna Ferðamálaráðs verið að huga að þessu og samgönguráðuneytið hefur veitt tiltekna styrki til aðgerða eins og í Japan og Kína sem er liður í því að standa með þeim sem eru að reyna að markaðssetja Ísland sem ferðamannaland á þeim svæðum. Ég tek því undir með hv. þingmanni að þetta eru verkefni sem við þurfum einnig að huga að.

Hvað varðar samstarfið við Grænland er alveg rétt að það er mikilvægt. Við höfum veitt sérstaka styrki til flugs milli Íslands og Grænlands og Alþingi hefur samþykkt þær fjárveitingar. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við Grænlendinga að markaðssetja það héðan, en það er nokkur vandi á höndum því að flugfélögin okkar geta ekki tekið það upp hjá sér að fara að fljúga til Grænlands vegna þess að samningar eru ekki í gildi um það á milli þjóðanna. Þeir hafa ekki náðst. Það er nokkur einokun á flugi til Grænlands sem hv. þingmaður þekkir. En ég tek undir að við þurfum að vinna að því að efla samstarfið og höfum verið að gera það. Við buðum m.a. á sínum tíma styrk til að koma upp flugbraut á tilteknum stað í Grænlandi sem ekki varð af vegna þess að heimamenn voru ekki reiðubúnir til að leggja í þær fjárfestingar, það var nærri Scoresbysundi. Það er því af ýmsu taka en þetta eru viðfangsefni sem ég tel eðlilegt að litið verði til og ágætt að umræða fari fram um það í tengslum við þingsályktunartillöguna.

Hvað varðar heilsárssamgöngur sem hv. þingmaður nefndi stendur margt til bóta í þeim efnum. Það er auðvitað lykill að því að hægt sé að selja tiltekna þjónustu út um landið að samgöngurnar séu í lagi allan ársins hring og þarf ekki að hafa mörg orð um það.

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi komið inn á þau atriði sem ég vildi sérstaklega nefna vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið. Ég vil endurtaka þakkir til þingmanna fyrir málefnalegar umræður og vænti þess að hv. samgöngunefnd fjalli rækilega um tillöguna og að hún verði afgreidd fyrir þinglok.