131. löggjafarþing — 103. fundur,  5. apr. 2005.

Jafnréttismál í landbúnaði.

[13:58]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér finnst það ekki boða gott að hæstv. ráðherra telji ekki að ófremdarástand ríki í þessum málefnum innan ráðuneytis hans. Hæstv. ráðherra er algjörlega ráðalaus og kannski kærir hann sig ekkert um að beita neinum ráðum og styggja þar með karlana, vini sína.

Það er nefnilega til ráð, frú forseti. Þegar stofnun er beðin um að tilnefna einn einstakling í stjórn eru miklar líkur á því, og nær undantekningarlaust, að karl sé tilnefndur, og kona í besta falli sem varamaður. Ráðið er einfalt, virðulegi ráðherra og frú forseti, og ég ætla að biðja hæstv. ráðherra að taka vel eftir. Ráðið er að biðja um tvær tilnefningar fyrir hvert sæti, sína tilnefninguna af hvoru kyni. Síðan verður það á valdi ráðuneytisins hvorn einstaklinginn það velur eftir því hvernig á að raða niður í nefndina. Þannig er hægt að ná fram jafnrétti, og þannig á að vinna.

Það er rétt sem fram kom hér áðan að það er mikilvægt að Bændasamtökin sýni frumkvæði. En það er landbúnaðarráðuneytið sem hefur skyldum að gegna og þeirri skyldu hefur ráðuneytið ekki sinnt vel eins og tölurnar í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni sýna. Verkin sýna merkin, frú forseti.